Í samtali við útvarpsfólk Rásar 2 í morgunútvarpinu þriðjudaginn 23. ágúst var Breka Karlssyni, formanni Neytendasamtakana, umhugað um verðlag á íslenskum landbúnaðarafurðum og hvort að tollvernd hafi ýtt undir verðhækkanir á þeim verðbólgutímum sem nú standa yfir. Þetta kemur fram á síðunni bóndi.is
Hækkanir á íslenskum landbúnaðarvörum til neytenda voru nefndar í sömu andrá og methagnaður fjármálafyrirtækja og verslana og aðilar voru beðnir um að sína samfélagslega ábyrgð í verki og halda aftur af verðhækkunum með því að minnka álagningu. Einnig var talað um að hækkun á þessum verðum væri innlend verðbólga en ekki innflutt verðbólga og því væri varla erlendum áhrifaþáttum um að kenna. Að nefna þessa hluti í sömu andrá er afar sérstakur málflutningur.
Ef horft er á verðþróun íslenskra landbúnaðarafurða aftur til byrjun árs 2018 hefur hún í flestum tilfellum haldist hönd í hönd við vísitölu neysluverðs. Er það þrátt fyrir að tollvernd á íslenska matvælaframleiðslu hafi lækkað mikið á sama tímabili. Stór auknir tollkvótar undanfarinna ára auk lækkana á tollagjöldum hafa ekki orðið til þess að lækka verð til neytenda. Hins vegar hefur afurðaverð til bænda ekki þróast í takt við tíð og tíma og greiða sauðfjár- og nautakjötsbændur með hverju kílói sem fer á markað.
Einnig er vert að taka fram að helstu kostnaðarliðir í íslenskum landbúnaði eru erlend aðföng. Nýlega þurftu aðilar landbúnaðarins og stjórnvalda að vinna saman til að bregðast við skarpri hækkun á innfluttum aðföngum, áburði, fóðri, plasti og olíu. Tíu milljarða hækkun á aðföngum á landsvísu setti bændur í alvarlega stöðu. Þrátt fyrir að íslenskar landbúnaðarafurðir reiði sig á íslenskt vinnuafl og íslenskar auðlindir þá eru þær næmar fyrir breytingum á heimsmarkaðsverðum, rétt eins og innflutt matvæli.
Umræða um að innlend matvælaframleiðsla sé undanþegin hækkun á heimsmarkaðsverðum er því á villigötum. Einnig hefur það heldur ekki reynst rétt að auknar heimildir til innflutnings hafi skilað sér í bættum verðum til neytenda. Íslenskir bændur eru því saklausir þegar kemur að hækkun matvælaverðs enda eru þeir ekki að vænka sinn hag á kostnað neytenda.
Höfundur er Sverrir Falur Björnsson, hagfræðingur Bændasamtakanna.