Viðbúnaðarstig hefur verið hækkað í syðri hluta Noregs. Skip sem leggja að bryggju sæta auknu eftirliti og sérstaklega er fylgst með gas- og olíuleiðslum. Lögregluyfirvöld hér fylgjast grannt með þróun mála. Fjallað er ítarlega um málið hjá ríkisútvarpinu.
Norska landhelgisgæslan hefur hækkað viðbúnaðarstig vegna skemmdarverka sem framin voru á gasleiðslum Nordstream. Fram kemur í frétt norska ríkisútvarpsins að talin sé aukin hætta þar í landi eða við landið. Ekki hafi borist hótun en óþekktir drónar hafi sést á flugi yfir Norðursjó.
Aukinn viðbúnaður er við strandlengjuna frá Stafangri norður til Þrándheims til þess að passa gas- og olíuleiðslur. Vopnaðir hermenn standa þar vörð. Þá hafa drónar verið notaðir til eftirlits. Öll skip sem stefna á nítján hafnir á þessu svæði þurfa nú að búa sig undir aukið eftirlit.
Um 4000 hermenn í heimavarnarliði landsins eru í viðbragðsstöðu. Utanríkisráðherra Íslands sagði í fréttum RÚV í síðustu viku að það væri áhyggjuefni hvort skemmdir yrðu unnar á sæstrengjum til og frá landinu. Hér er hægt að lesa nánar um málið. og hér: https://www.nrk.no/nyheter/