Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir í færslu á Facebook í kvöld að hann hafi farið inn á þing Alþýðusambandsins með háleit markmið og einlæga von um að aðildarfélögum tækist að snúa bökum saman. Þá fer hann yfir upplifun sína á því að vinna fyrir launafólk í landinu og segir frá þeim aðstæðum sem hann hefur upplifað í störfum sínum.
Kæru vinir.
Ég tók nýverið ákvörðun um að bjóða mig fram til forseta ASÍ á þingi sambandsins sem haldið er dagana 10. til 12. október.
Markmiðið með framboði mína var að gera tilraun til að sameina krafta okkar á þessum vettvangi. Sameinast undir merkjum ASÍ og sameinast sem breiðari fylking en áður og nýta þingið sem tækifæri til að slíðra sverðin og snúa bökum saman. Ég hafði einlæga trú um að við gætum skilið þá eitruðu orðræðu og átök sem hafa einkennt Alþýðusambandið síðustu ár eftir á þinginu.
Verkefnin framundan eru risastór og krefjandi. Kjarasamningarnir framundan verða þeir flóknustu og erfiðustu frá hruni.
Fyrir síðustu samninga mynduðu nokkur stéttarfélög bandalag og náðum, að mínu mati, mjög góðri niðurstöðu við erfiðar aðstæður. Margþættar kjarabætur í bland við aðgerðarpakka stjórnvalda. Ef okkur tókst þetta í smærri hóp hugsaði ég sem svo, hversu miklu getum við náð ef við stöndum saman sem enn breiðari fylking og á vettvangi ASÍ?
Við verðum óstöðvandi og við munum ná gríðarlegum árangri fyrir okkar fólk. Við vorum byrjuð á þessari vinnu á óformlegum vettvangi ASÍ þar sem saman komu landssambönd verslunarfólks, starfsgreinasambandsins og iðnaðarmanna.
Í þau 14 ár sem ég hef starfað innan hreyfingarinnar hef ég sjaldan fundið jafn góðan anda innan ólíkra hópa. Við vorum að hefja vinnu við það hvernig við gætum sameinast um ólíkar áherslur og var ég afar bjartsýnn fyrir þingið um að okkur tækist raunverulega að leiða okkur saman.
Síðustu daga og vikur fyrir þingið höfðu litast af ótrúlega ósmekklegri orðræðu og árásum á mína persónu. Ég var ítrekað kallaður valdasjúkur ofbeldismaður og sakaður um að ætla að segja upp öllu starfsfólki ASÍ kæmist ég til valda. Það er einkar dapurlegt að gjaldfella orðið ofbeldi með þessum hætti. Að stilla upp pólitískum deilum og ágreiningi upp sem ofbeldi eru kaldar kveðjur til þeirra sem raunverulega verða fyrir ofbeldi.
Ég hef oft talað um mikilvægi samstöðu ólíkra hópa til að ná árangri. Raunverulegum árangri fyrir okkar félagsfólk og fyrir samfélagið allt. Um það snýst málið. Við erum að vinna fyrir fólkið okkar. Fólkið sem treystir okkur fyrir að bæta lífskjörin. Þau öfl sem hafa viljað okkur burt hafa ekki talað einu orði um þetta. Ekki einu orði um fólkið okkar sem getur vart borgað af lánunum sínum eða húsaleiguna. Eða fjölskyldur sem geta lítið orðið gert annað en að kaupa síhækkandi nauðsynjar í 9% verðbólgu og hækkandi vöxtum.
Stjórnvöld hafa svo lítið lagt til málanna annað en auknar álögur ofan á allt saman. Af hverju í ósköpunum getur umræðan ekki snúist um þetta? Af hverju þetta taumlausa hatur? Hvað höfum við eiginlega gert þessu fólki?
Fyrir síðustu kjarasamninga bárust mér og fjölskyldu minni alvarlegar hótanir. Hótanir sem hægt var að rekja til þeirrar orðræðu sem var á þeim tíma, þið munið, við vorum stórhættulegt og kolruglað fólk með sturlaðar kröfur sem leggði hagkerfið í rúst og allt það.
Það kemur fyrir að fárveikt fólk grípur svona hluti. Í gegnum tíðina höfum við fengið okkar skerf af slíku, mis alvarlegu þó. Það er þó eins og stemningin sé að breytast í okkar samfélagi og mál sem þessi koma oftar og oftar upp gagnvart kjörnum fulltrúum. Á sama tíma höfum við verið að taka þessu áreiti og hótunum af meiri alvöru.
Með meiri neikvæðri athygli fylgir aukið áreiti og um síðustu mánaðarmót fór að bera aftur á alvarlegum hótunum. Ég tala ekki mikið um þetta og ég læt alltof sjaldan vita af því. Guðbjörg konan mín tekur þetta mjög nærri sér, eðlilega því við erum með ung börn á heimilinu.
Til að setja í samhengi hvað ég er að tala um á ég mér drauma og markmið. Þeir voru að sameina hreyfinguna fyrir fólkið okkar og fólkið í landinu. Ná árangri og breyta til hins betra. En fyrir þeim er ekki ótakmörkuð innistæða.
Sérhagsmunaöflin sem við erum að berjast á móti eru hrikaleg og mun ósvífnari og skipulagðari heldur en flestir gera sér grein fyrir. Þess vegna byggjast möguleikar okkar og árangur á samstöðu.
En allt hefur sín mörk og stundum sigrar hatrið eins og segir í textanum. Hatrið sigraði mig í dag. Samvinna og samstaða er val, sömuleiðis átök og sundrung.
Undanfarið hafa dunið á mér ásakanir um ofbeldi og því slegið upp á forsíðum og með greinarskrifum, undirrituðu af fullorðnu fólki. Fólki sem með réttu ættu að kallast félagar mínir. Ég er vændur um að sækjast í völd, öskri og skelli hurðum ef ég fæ ekki mínu fram og vilji reka fólk fyrir engar sakir.
Þrátt fyrir að hafa tekist, ásamt stjórn VR, að skapa frábæra stemningu og liðsheild innan VR síðustu 6 ár. Þar hefur samt engum verið sagt upp og starfsánægja með því sem best þekkist.
En allt þetta skiptir engu máli. Sé lygin sögð nægilega oft fer fólk að trúa henni. Trúa því að þetta sé mögulega satt.
Ég fór inn á þing Alþýðusambandsins með háleit markmið og einlæga von um að okkur tækist að snúa bökum saman og hugsa um fólkið okkar, sameinast og berjast fyrir fólkið. Ég bauð mig fram til að leiða þetta verkefni. Ekki af því að ég er sjúkur í völd heldur vegna þess að ég hafði trú á því að þetta væri hægt, í ljósi þess hversu vel okkur hefur tekist til í VR við að sameina ólík sjónarmið og vinna sem ein heild, ekki meiri eða minnihluti heldur liðsheild.
Í morgun fékk ég skjáskot af enn einni færslu frá formanni stéttarfélags innan ASÍ, einum af þeim sem hefur talað hvað hæst gegn því að ég og margir fleiri nái kjöri á þingi sambandsins. Í færslunni er ég enn og aftur sakaður um ofbeldi og markmið mitt sé fyrst og fremst að segja upp öllu starfsfólki.
Þegar börnin mín lesa fyrirsagnir um að pabbi þeirra stundi ofbeldi og reki fólk fyrirvaralaust eða heyra því hvíslað á förnum vegi, brestur eitthvað.
Ég ræddi þetta við konuna mína yfir kaffibolla í morgun, eftir að við lásum nýjustu árásina í minn garð. Árás á mína æru og persónu. Árás á miðju þingi ASÍ sem ég vonaðist til að vera vettvangur sátta. Ákváðum við í sameiningu að þetta væri ekki þess virði. Því miður.
Ég skal viðurkenna það að ég átti mjög erfitt eftir að ég tók þessa ákvörðun og var við það að brotna niður. Ekki vegna þess að ég fengi ekki meiri völd, heldur að sjá á eftir tækifærinu sem við höfðum til að verða ósigrandi. Ég trúði þessu svo innilega að þetta væri hægt og hvað við ætluðum að ná miklu fram fyrir fólkið okkar.
En ég finn líka fyrir miklum létti að vera laus úr þessu sambandi. En allt eru þetta valkostir og ég valdi í dag.
Ég tók ákvörðun um að velja að vinna frekar með öllu því frábæra fólki sem starfar á vettvangi VR. Ég valdi samheldni og virðingu. Okkur í VR mun örugglega takast vel til í næstu kjarasamningum þó samningsstaðan gagnvart stjórnvöldum sé ekki lengur til staðar. Ég mun gera mitt allra besta eins og alltaf fyrir félagsfólk VR. Því lofa ég.
Ég ber engan kala til þess fólks sem var með yfirlýst markmið um að fella okkur á þinginu. Við þau vil ég segja. Nú erum við farin, ekki lengur fyrir. Nú fáið þið tækifæri til að leiða kjarasamninga ykkar félaga og vettvang ASÍ til að styðja við þá vegferð. Ég óska ykkur alls hins besta. Ég vona að þið nýtið tækifærið vel og náið sem bestum árangri fyrir ykkar fólk, árangri sem nýtist okkur í okkar baráttu.
Baráttukveðjur
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR