Dr. Ingunn Hansdóttir, lektor við sálfræðideild Háskóla Íslands, tók við starfi yfirsálfræðings SÁÁ. Hún þekkir vel til hjá samtökunum og starfaði sem sálfræðingur og stjórnandi klínískra rannsókna SÁÁ frá 2005 til 2011. Sem yfirsálfræðingur mun hún hafa umsjón með sálfræðilegri meðferð og leiða þróun meðferðar SÁÁ en Ingunn er sérhæfð í hugrænni atferlismeðferð. Hún mun leiða fræðslustarfi í samstarfi við aðrar heilbrigðisstéttir sem og vísindarannsóknum á vegum samtakanna.
„Stóra verkefnið verður tengt innihaldi meðferðarinnar. Mitt hlutverk er að leiða þróun hennar og vinna að því að SÁÁ haldi áfram að veita sínum skjólstæðingum bestu þjónustu sem völ er á í anda gagnreyndrar, sálfélagslegrar meðferðar,“ segir Ingunn. „Við horfum heildrænt á skjólstæðingana og skoðum stöðu þeirra frá ýmsu sjónarhorni, læknisfræðilega, sálfræðilega og félagslega. Allir þessir þættir skipta miklu máli.“
Hvaða hlutverki gegnir sálfræði í meðferð eins og hjá SÁÁ sem er á ábyrgð lækna, byggist á fíknlækningum og nálgast fíknsjúkdóminn sem heilasjúkdóm?
„Vísindaviðmið SÁÁ byggja á líffræðilegum og sálfélagsfræðilegum grunni Það að áfengis- og vímuefnafíkn sé heilasjúkdómur útilokar ekki að maður beiti sálfræðilegri meðferð því sjúkdómurinn hefur afleiðingar og það þarf einhvern veginn að takast á við afleiðingarnar. Þú getur ekki tekið pillu við afleiðingum þess að vera með ákveðinn sjúkdóm þannig að endurhæfing felur alltaf í sér ákveðna nálgun og hér er það þessi nálgun. Þótt neyslan hafi áhrif á heila sjúklings þýðir það ekki að við getum ekki notað aðferðir sálfræðinnar til að takast á við vandann. Hegðun hefur áhrif á heilann.
Hugræn atferlismeðferð hefur áhrif á heilann og breytir honum. Við breytum kannski ekki orsökunum en við getum haft áhrif á hvernig sjúklingnum líður og hvernig heilinn starfar. Þetta styður allt hvað við annað. Aukin áhersla á mikla endurhæfingu Það er ekki nóg að hafa einhverja arfgerð til að að þróa með sér áfengissýki. Fólk þarf að vera í umhverfi sem leysir erfðirnar út og til að verða alkóhólisti þarf að drekka og sýna ákveðna félagslega hegðun. Þessir þættir spila allir saman. Það að við köllum þetta heilasjúkdóm útilokar ekki annars konar meðferð. Þekking á heilasjúkdómnum nýtist til upplýsingar í sálfræðilegri meðferð.
Þannig skynjum við betur hvar sjúklingur er staddur, hvernig hugsun hans stödd og hvaða meðferð hann getur notfært sér. Meðferðin miðar að endurhæfingu. Eitt af því sem hefur breyst í nálgun á fíknsjúkdóminn er aukin áhersla á mikla endurhæfingu og langvarandi nálgun á það verkefni.
Batinn tekur tíma og hefur mörg stig, góð heilsa snýst ekki bara um að vera laus við sjúkdóm, heldur tekur líka til geðheilbrigðis og til lífsgæða almennt. Heilbrigðiskerfið er hins vegar tregt til að gefa sjúklingum langan tíma til að batna. Fólk þarf að takast á við þreytu, kvíða, félagsleg tengsl og alls konar verkefni og áskoranir, meðferðin hér fókuserar á alla þætti til að gera fólk hæft til að takast á við lífið aftur. Eftir afeitrun á sjúkrahúsinu tekur við tekur við eftirmeðferð og göngudeildarmeðferð sem styður við fólk í margar vikur og upp í heilt ár.“
Þannig að þín ráðning er ekki vísbending um að það sé verið að undirbúa róttækar breytingar á meðferðinni?
Nei, ekki aðrar en þær að fylgja eftir þróuninni og styðjast áfram við gagnreyndar meðferðir og aðferðir. Hugræn aferlisnálgun og áhugahvetjandi samtöl verða áfram í forgrunni eins og verið hefur en hugsanlega munum við þróa sérstakar aðferðir fyrir sérstaka hópa í takt við þarfir sjúklinganna. Það er engin stefnubreyting í augsýn, við höldum áfram að beita faglegum vinnubrögðum sem byggja á gagnreyndum aðferðum.“
Bætt tengsl við háskólann
Ingunn mun áfram starfa sem lektor við sálfræðideild Háskóla Íslands samhliða starfinu hjá SÁÁ. „Með því að fá mig hingað er meðal annars ætlunin að greiða fyrir tengslum háskólasamfélagsins við þessa meðferðarstofnun, sem mun styrkja bæði SÁÁ og sálfræðideildina. Hingað geta þá komið nemar í handleiðslu og til að vinna verkefni.
Þannig er hægt að styrkja tengsl háskólans við hin hagnýtu starfssvið. Við hjá SÁÁ erum ekki háskólasjúkrahús eins og Landspítali en vísindaheimurinn og meðferðarheimurinn geta unnið betur saman ef tengsl af þessu tagi eru til staðar.
Hjá SÁÁ hefur hins vegar lengi verið unnið að vísindarannsóknum og sálfræðiþjónusta barna sem samtökin veita er gott dæmi um hvernig þær rannsóknir hafa áhrif á starfsemi SÁÁ. Við vitum úr rannsóknum að erfiðir hafa mjög mikið að segja og börn eru í aukinni hættu á að þróa með þér fíknsjúkdóm ef þau koma úr þannig umhverfi.
Því var tekin sú stefna að setja upp sérhæfða þjónustu til að styðja við og styrkja börn alkóhólista til þess að þau geti síðan betur tekist á við lífið. Vonandi verður hægt að halda áfram að þróa þá þjónustu og gera hana aðgengilega fyrir stærri hóp.
Þegar ég byrjaði fyrst hjá SÁÁ árið 2005 vann ég við stóra erfðafræðirannsókn sem styrkt var af ESB og unnin í samstarfi við Íslenska erfðagreiningu. Það var þriggja ára verkefni sem skilaði ekki bara nýrri þekkingu um arfgengi fíknsjúkdóma heldur líka mikilli hagnýtri þekkingu til ráðgjafa varðandi vinnubrögð og matskerfi. Í tengslum við þá rannsókn var hópur starfsfólks SÁÁ þjálfaður í vísindalegri nálgun, mælingum og mati og það nýttist vel í meðferðarstarfi þar sem fólk þarf að kunna góð vinnubrögð við greiningu.
Við gerðum líka mikilvæga klíníska lyfjarannsókn á því hvort hægt væri að nota ákveðið lyf til að styðja þá sem eru með amfetamín í fyrstu skrefum batans. Það vantaði góð ráð til að hjálpa þeim hópi til að bæta meðferðarárangur. Meginniðurstaðan var sú að það er svo mikil sálfélagsleg meðferð í boði hér á landi að lyfin bættu engu við meðferðina. Erlendis hafa rannsóknir sýnt að lyfið gagnist en það er í öðru meðferðarumhverfi þar sem meðferð er ekki jafn aðgengileg fyrir sjúklinga og hér á landi.
Íslenskt meðferðarumhverfi er að mörgu leyti einstakt. Við höfum óvenjulega möguleika á að afla þekkingar og þróa starfið áfram vegna þess að við vinnum fyrir heila þjóð og það er miklu meiri breidd í starfinu en maður sér hjá einum aðila erlendis. Þar eru gjarnan sérhæfðari deildir og stofnanir en við sinnum aðstandendum, börnum, unglingum, fólki sem er með ýmis konar vanda og þeim sem eru mjög illa staddir félagslega og svo framvegis. Það er líka mjög sérstakt að fólk úr öllum þjóðfélagshópum kemur hingað til meðferðar. Hér hittir frúin úr Vesturbænum manninn sem hefur búið á götunni. Ég held að það dragi úr fordómum gagnvart fólki með fíknsjúkdóma.“
Ráðgjafar sérhæfðir heilbrigðisstarfsmenn
Áfengis- og vímuefnaráðgjafar gegna miklu hlutverki í allri meðferð sem SÁÁ veitir en allt frá upphafi hafa samtökin sjálf annast kennslu og starfsþjálfun þeirra. Menntun þeirra fer fram samkvæmt námskrá og námstíminn spannar þrjú ár og lýkur með prófi sem veitir starfsréttindi sem eru lögvernduð réttindi heilbrigðisstéttar. Eitt af verkefnum Ingunnar verður að hafa umsjón með þessu námi og halda áfram að þróa það.
„Áfengis- og vímuefnaráðgjafar eru löggilt heilbrigðisstétt. Þeir hafa fengið sérhæfða þjálfun og stundað nám sem stenst löggildingarkröfur landlæknis og gegna mikilvægu hlutverki í meðferðinni. Að mínu viti er hið faglega umhverfi mjög metnaðarfullt og ég mun leitast við að styrkja námið þannig að ráðgjafar séu ávallt þjálfaðir til að veita bestu, faglegu meðferð. Ég er svo nýlega komin til starfa að ég er enn að kynnast innihaldi námsins og móta mér hugmyndir hvað þetta varðar og hvernig best er að hagnýta ýmis konar vísindalega þekkingu sem til er í því skyni.
Þjálfun ráðgjafanna er góð og vegna sérhæfðrar þjálfunar veita þeir mjög faglega meðferð. Ég hef samanburð við ýmsar aðrar heilbrigðisstéttir og hef starfað á öðrum sjúkrahúsum. Þar starfar gjarnan fólk með alls konar menntun frá ólíkum löndum og með mismunandi hugmyndafræði þannig að skjólstæðingarnir fá stundum ekki sömu skilaboð frá öllum. Þá verður ekki sami slagkraftur í starfinu. Það er mjög gott að koma inn í þetta umhverfi að því leyti að hér er þessi sameiginlegi þekkingargrunnur.
Sérhæfðir heilbrigðisstarfsmenn með þekkingu og þjálfun á ákveðnu sviði nýtast heilbrigðiskerfinu sérstaklega vel til að aðgengi sé gott og að hægt sé að veita árangursríka meðferð. Það er þekkt leið að þjálfa sérhæft heilbrigðisstarfsfólk til ákveðinna verkefna. Í Bretlandi hefur til dæmis verið í gangi átak til að auka aðgengi almennings að gagnreyndri sálfræðilegri meðferð sem byggir á huglægri atferlismeðferð. Grunnurinn í því starfi byggist á sérhæfðu starfsfólki sem starfar undir handleiðslu sérfræðinga. Þar er veitt fyrsta skrefið í þjónustunni en ef vandi fólks er flóknari og margþættari taka sérfræðingar við. Svona sparast fjármunir og fleiri geta nýtt þjónustu sem of dýrt væri að veita með öðrum hætti.
Aðgreining kynjanna felst í meðferðarstarfinu
Þú nefndir meðferð fyrir sérstaka hópa. SÁÁ hefur lengið haft aðgreinda meðferð fyrir karla og konu. Er nauðsynlegt að auka þá aðgreiningu?
„Meðferð SÁÁ er sérhæfð fyrir konur. Aðgreining kynjanna felst í meðferðarstarfinu og í því að innihald meðferðarinnar sé sniðið að þörfum kvenna. Hér á Sjúkrahúsinu Vogi eru karlar og konur ekki saman í herbergi frekar en á almennum spítala. Hér fer líka fram afeitrun, og hér er margt fólk dögum saman í fráhvörfum. Við höfum ekkert í höndunum sem segir okkur að afeitrun fólks í fráhvörfum gangi betur ef hún er kyngreind frekar en flest önnur heilbrigðisþjónusta og heldur ekki fræðsla sem fer fram í fyrirlestrum. Við erum með sérstaka kvennaálmu, gang þar sem bara eru herbergi fyrir konur. Hefur það neikvæð áhrif að sitja í matsal og fyrirlestrasal með hinu kyninu eins og gert er hér á Sjúkrahúsinu Vogi? Ég veit ekki um neinar rannsóknir sem taka til þess.
Við þurfum alltaf að vera vakandi fyrir því að hugsa vel um fólkið okkar og að því líði vel en ég kem ekki auga á að það sé endilega til bóta að hafa algera aðgreiningu karla og kvenna. Þær rannsóknir sem eru til á kynjamun og ég þekki til snúa allir að innihaldi meðferðar. En ef einhver sýnir mér fram á annað með rannsóknum þá verð ég fyrst til að fallast á það.
En áfallatengd meðferð. Um þessar mundir er mikið talað um áföll sem orsök fíknsjúkdóma og þörf á að mæta fólki sem glímir við fíknsjúkdóma með sérstakri áfallameðferð?
„Fólk sem lendir í áföllum á hugsanlega erfiðara með að vinna úr mörgum hlutum í lífinu. Við getum litið á áföll sem langvarandi streitu sem fólk býr við. Til að hjálpa fólki í þeirri stöðu þarf að hjálpa því að takast á við streituna og komast úr því ástandi.
Öll heilbrigðisþjónusta á að taka tilliti til sálfélagslegrar stöðu
Í mínum geira veitum við meðferð við áfallastreituröskun þegar hún er komin á ákveðið stig. Með slíkri meðferð hjá sérfræðingum getur fólk náð mjög góðum tökum á vandanum.
Við þurfum að vera upplýst um áhrif áfallastreituröskunar í okkar meðferð og það á ekki bara við um meðferð við fíkn. Við eigum að gera þá kröfu í allri heilbrigðisþjónustu að hún sé áfallamiðuð. Fólk sem er undir langvarandi streitu er við verri heilsu, og það getur komið fram sem hækkaður blóðþrýstingur, drykkja eða ofát, eða eitthvað annað.“
Ráða áföll í fortíðinni miklu um það hvort fólk þróar með sér alkóhólisma eða vímuefnafíkn?
„Valda áföll fíkn? Ekki beint en þau geta aukið hættuna á að þróa fíkn. Það að vera í neyslu getur líka aukið hættuna á lenda í áföllum. Það er líka hærri tíðni áfalla hjá þeim sem eru með ýmsa geðræna kvilla.
Áföll eru almennur áhættuþáttur fyrir því að vegna verr í lífinu. Í umræðunni er stundum eins og fíknin ein sé tengd áföllum. Umræðan er minni um áföll og geðraskanir og önnur heilbrigðisvandamál. Áföll ættu að vera mikilvægur liður í allri heilbrigðisþjónustu, við erum alltaf að verða upplýstari og upplýstari um áhrif þeirra á heilsufar og geðræna stöðu til langs tíma. Ég held að þeir sem til þekkja viti að í geðheilbrigðiskerfinu og öllu heilbrigðiskerfinu er lítið hugað að áföllum og áfallasögu. En það að lenda í áfalli með stóru Á-i, er sammannleg reynsla. Langflest fólk lendir einhvern tímann í einhverju og leysir úr því á farsælan hátt með tímanum en sum sitja eftir og eiga erfiða sögu og hafa lent í endurteknum áföllum. Þau glíma oft við marga fylgikvilla og geta þarfnast mikillar hjálpar hjá sérfræðingum.“
—
Viðtalið birtist í SÁÁ blaðinu, 1. tbl. 2016, en því var dreift í hús á höfuðborgarsvæðinu 22. mars og er einnig einnig aðgengilegt í pdf-skjali hér á saa.is.