,,Ansi kræfur að senda þetta á okkur“
Það virðist vera lítið lát á póstum frá forstjórum stórfyrirtækja um þessar mundir og meira að segja hefur einn slíkur sent lögreglunni á Suðurnesjum póst og heitið þeim 460 milljónum krónum, samkvæmt upplýsingum á þeim bæ.
Forstjóri Facebook
En er allt sem sýnist? Lögreglan hefur kafað ofan í málið og birti niðurstöðuna á Facebook síðu sinni:
,,Það eru fleiri en Haraldur sem fá póst frá forstjórum stórfyrirtækja. Haldiði að forstjóri Facebook hafi ekki verið að setja sig í samband við okkur og tilkynna okkur að við höfum verið að vinna 3.000.000 evra, sem jafngildir rúmum 460 milljónum íslenskra króna.
Eina sem við þurfum að gera er að setja okkur í samband við þá í hlekk sem fylgir með póstinum og við erum farin til Tene……….Að sjálfsögðu er þetta svikapóstur þar sem verið er að reyna að fá fólk (lögregluna í þessu tilefni) til að gefa upp upplýsingar sem skúrkarnir notfæra sér svo.
Við vörum oft og iðulega við þessum svikahröppum og fyrir alla muni alls ekki svara svona vitleysu. En ansi kræfir að senda þetta á okkur af öllum 🙂 Eigið góða helgi bara.“ Segir í færslu lögreglu og hér að neðan er mynd af svikapóstinum.