Breytingar sem gerðar hafa verið á lögum um atvinnuréttindi útlendinga auðvelda fólki sem fengið hefur dvalarleyfi af mannúðarástæðum að komast út á vinnumarkaðinn. Það sama gildir um þau sem fengið hafa dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið. Breytingarnar voru samþykktar sem lög frá Alþingi þann 15. mars sl. og hafa þegar komið til framkvæmdar.
Áður þurftu atvinnurekendur sem vildu ráða einstaklinga með ofangreind dvalarleyfi að sækja um tímabundið atvinnuleyfi til Vinnumálastofnunar fyrir hönd viðkomandi. Eftir breytingarnar er fólki á hinn bóginn heimilt að vinna um leið og dvalarleyfi hefur verið útgefið. Auk þess kann fólk nú að eiga rétt til greiðslna atvinnuleysistrygginga hafi það áunnið sér slíkan rétt.
„Þetta eru mikilvægar breytingar sem hafa samstundis áhrif. Fyrir þau sem reyndu að fá vinnu gat verið hindrun falin í því að atvinnurekendur þurftu að sækja sérstaklega um tímabundið atvinnuleyfi og bíða síðan eftir afgreiðslu umsóknarinnar. Nú hefur þeirri hindrun verið rutt úr vegi og fólkið hefur ótakmarkaða heimild til að starfa hér á landi,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra.
„Þetta voru tímabærar breytingar sem kallað hafði verið eftir, enda auðvelda þær fólkinu sjálfu lífið til muna en einnig atvinnurekendum.“
Undir þann hóp sem fengið hefur dvalarleyfi af mannúðarástæðum fellur meðal annars flóttafólk frá Úkraínu sem fengið hefur leyfið útgefið á grundvelli fjöldaflótta.
Lögunum sem var breytt eru lög um atvinnuréttindi útlendinga nr. 97/2022 og má nálgast nýjustu útgáfuna á vef Alþingis. Gerðar voru breytingar á ákvæðum 11., 12. og 22. gr. laganna.
Atvinnuleyfi vegna starfa sem krefjast sérhæfðrar þekkingar
Aðrar breytingar voru einnig gerðar á lögunum í vor þegar nýrri málsgrein var bætt við 8. gr. þeirra. Í henni er kveðið á um heimild ráðherra til að birta í reglugerð lista yfir þau störf sem krefjast sérhæfðrar þekkingar sem tímabundinn skortur er á hér á landi. Vinnumálastofnun er nú heimilt að veita tímabundið atvinnuleyfi á grundvelli ákvæðisins vegna starfs sem krefst sérhæfðrar þekkingar og birt hefur verið í reglugerð.
Drög að slíkri reglugerð voru í lok apríl birt í samráðsgátt stjórnvalda. Frestur til að veita umsögn um hana er til 12. maí nk.