,,Svarið er yfirleitt já“
Fyrir nokkrum árum rak ég fyrirtæki sem seldi vörur til útflutningsfyrirtækja. Eitt sinn spurði stjórnandi eins fyrirtækjanna hvort ég vildi ekki fá vörureikningana borgaða í evrum í stað króna, sem ég þáði. Eftir það var hægt að senda greiðslur beint til erlendra birgja án þóknana bankans og gengisáhætta var úr sögunni. Við gátum lækkað verð um allt að 5% vegna stöðugleikans sem evran færði okkur.
Í umræðum um evrópumál hef ég stundum spurt viðmælendur mína hvernig þeim litist á að fá laun eða lífeyri greiddan í evrum í stað krónu.
Svarið er yfirleitt já. Fólki líst almennt vel á að fá útborgað í alþjóðlegum gjaldmiðli sem er hægt að nota hvar sem er í heiminum í stað krónu sem er aðeins hægt að nota á Íslandi.
Kostir evrunnar sem gjaldmiðill á Íslandi eru margir fyrir launafólk og lífeyrisþega. Við þyrftum ekki lengur að skipta krónum fyrir evrur þegar við ferðumst til evrulanda. Hefðbundið álag á greiðslukortaúttektir, krónugengið, yrði úr sögunni en það getur oft farið í um 5% af greiddri upphæð með korti í útlöndum. Sparnaður í evrum væri sparnaður til evru-áranna!
Haldið var upp á hundrað ára afmæli krónunnar í fyrra. Það voru engin hátíðarhöld enda hefur krónan síðan rýrnað um 99,9% með tilheyrandi eignarýrnun fyrir almenning. Þessi tilraun með „sjálfstæðan“ gjaldmiðil hefur mistekist að mínu mati og kominn tími til að huga að öðrum lausnum. Ekkert annað þróað smáríki er með eigin sjálfstæðan gjaldmiðil enda áhættan og kostnaðurinn talinn of mikill. Samt höldum við áfram á þessari vegferð.
Ef evra væri notuð á Íslandi myndi um 1000 milljarða gjaldeyrisvarasjóður verða óþarfur og gæti hann nýst í innviða- og íbúðaframkvæmdir og í umbætur í velferðar-, heilbrigðis- og menntakerfinu. Með evru sparast tugmilljarða kostnaður fyrirtækja og heimila á hverju ári við að skipta gjaldeyri úr krónum í evrur og öfugt. Seðlabankinn yrði óþarfur að mestu.
Fyrirtækin í landinu hefðu mikinn hag af evrunni enda eru um 300 stærstu útflutningsfyrirtækin þegar búin að skipta yfir í erlendan gjaldmiðil og taka nú lán á mun hagstæðari kjörum en önnur fyrirtæki í landinu. Með evru gætu öll fyrirtækin greitt birgjum á evrusvæði gegnum heimabankann, án milligöngu bankanna. Þau gætu notið betri lánskjara, einnig sveitarfélög og ríkissjóður. Samkeppnisstaða íslenskra fyrirtækja gagnvart erlendum fyrirtækjum sem nú starfa á Íslandi (Bauhaus, Costco, Húsasmiðjan/Bygma ofl.) myndu þannig batna til muna. Auk þess mun evran laða erlend tryggingarfélög og banka til landsins en krónan er besta vörn þeirra gegn samkeppni á þessum markaði þar sem fákeppni ríkir í dag.
Með evrunni myndi erlend fjárfesting aukast en hún er í dag nánast engin, líklega vegna áhættunnar sem fjárfestar sjá á gengissveiflum krónunnar.
Almennt er viðurkennt að vextir í krónum eru um 4% hærri en í helstu viðskiptalöndum vegna lánaáhættu og verðbólguvæntinga okkar smáa gjaldmiðils. Oft er talað um krónuálagið í því sambandi. Miðað við allar skuldir á Íslandi sem í dag nema um 7.700 milljörðum þýðir þetta álag rúmlega 300 milljarða viðbótarvaxtakostnað á ári fyrir almenning, fyrirtæki, sveitarfélög og ríkissjóð sem gerir tæpan milljarð á dag!
Húsnæðislán í krónum eru í dag með allt að þrisvar sinnum hærri vöxtum en slík lán í helstu evrulöndum. Sem dæmi myndu vextir af 40 milljón króna íbúðaláni vera um 1600 þúsund krónum lægri á ári af evruláni en af krónuláni. Það gera um 133 þúsund krónur á mánuði, rúmlega 200 þúsund fyrir skatta. Það munar um slíka kaupmáttaraukningu.
Augljós ávinningur er því að hafa evruna sem lögeyri í landinu.
Væri ekki bara best að fá útborgað í evrum í framtíðinni? Hvað finnst þér?