Samhæfingarstöð Almannavarna var virkjuð rétt fyrir klukkan 18 kvöld, vegna leitar að lítilli flugvél á Austurlandi, þar sem Landhelgisgæsla stýrir aðgerðum. Vélin er gerðinni Cessna 172. Staðfestar upplýsingar um fjölda um borð liggja ekki fyrir að svo stöddu.
Boð bárust frá neyðarsendi vélarinnar sem beina leit inn á svæði á Öxi og þar vestur af. Aðgerðastjórn á Austurlandi hefur verið virkjuð og allir viðbragðsaðilar á Austurlandi hafa verið boðaðir út, og þyrla frá Landhelgisgæslunni er á leið á svæðið til leitar. Einnig er ferðaþjónustuþyrla frá Möðrudal á leið til leitar.
Allar björgunarsveitir eru nú farnar til leitar að flugvélinni. Hafdís Einarsdóttir, sem stýrir aðgerðum frá Skógarhlíð, sagði í kvöldfréttum sjónvarps að leitarsvæðið væri nokkuð stórt en leitað væri eftir ákveðnum vísbendingum um staðsetningu vélarinnar, frá Öxi og þar vestur af. Drónar, fjórhjól, sexhjól og bílar verða notaðar við leitina. Enn er ekki vitað hve margir eru um borð í vélinni.
Umræða