Utanríkisráðuneyti Íslands og Litáens hafa gert með sér samkomulag um að íslenskir stjórnarerindrekar fái vinnuaðstöðu í sendiráði Litáens í Kænugarði. Íslensk stjórnvöld áforma að auka viðveru í Úkraínu og sýna úkraínsku þjóðinni þannig samstöðu á tímum ólögmæts innrásarstríðs Rússlands.
Hannes Heimisson sendiherra Íslands gagnvart Úkraínu afhenti Volodymyr Zelensky, forseta landsins, nýverið trúnaðarbréf sitt. Með samkomulaginu við Litáen fá fulltrúar íslenska ríkisins nú tryggan aðgang að aðstöðu í Kænugarði til að sinna störfum í landinu. Samkomulaginu fylgja engar fjárhagslegar skuldbindingar.
„Litáen er ein nánasta vinaþjóð Íslands og samvinna landanna hefur dýpkað jafnt og þétt. Um leið gerum við ráð fyrir að samskipti okkar við Úkraínu eigi eftir að aukast enn frekar. Eins og sakir standa höfum við ekki áform um að opna sendiskrifstofu í Kænugarði og því er þetta vinarbragð Litáa afar kærkomið. Með aukinni viðveru í Úkraínu getum við treyst böndin við þarlend stjórnvöld og sýnt úkraínsku þjóðinni samstöðu um leið og við getum sótt í þá þekkingu og reynslu sem Litáar og aðrar vinaþjóðir okkar hafa hvað varðar þetta svæði. Það mun reynast okkur ómetanlegt á komandi árum varðandi ákvarðanir um stuðning við Úkraínu,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra.
„Á undanförnum árum höfum við séð samstarf Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna eflast, bæði pólitískt, en einnig praktískt. Á sameiginlegum fundi í Kænugarði kölluðum við, ásamt utanríkisráðherra Íslands og annarra norrænna þjóða, eftir auknum aðgerðum bandalagsþjóða við Atlantshafið, til að flýta fyrir sigri Úkraínumanna. Eins og staðan er núna er þétt samstaða Íslands og Litáen ekki aðeins táknræn heldur raunveruleg“ segir Gabrielius Landsbergis utanríkisráðherra Litáens.
Úkraína er eitt af umdæmisríkjum sendiráðs Íslands í Varsjá í Póllandi þar sem Hannes Heimisson er sendiherra.