Samkeppniseftirlitið hefur með ákvörðun nr. 33/2023 lokið rannsókn á brotum Samskipa á samkeppnislögum. Það er niðurstaða eftirlitsins að Samskip hafi með alvarlegum hætti brotið gegn banni 10. gr. samkeppnislaga og 1. mgr. 53. gr. EES-samningsins, með ólögmætu samráði við Eimskip.
Þá er það niðurstaða Samkeppniseftirlitsins að Samskip hafi við rannsókn málsins brotið gegn 19. gr. samkeppnislaga með rangri, villandi og ófullnægjandi upplýsingagjöf og gagnaafhendingu.
Samanlagðar stjórnvaldsektir vegna framangreindra brota nema 4,2 milljörðum króna.
Jafnframt er lagt fyrir Samskip að grípa til tiltekinna aðgerða í því skyni að koma í veg fyrir frekari brot og efla samkeppni.
Rannsókn á brotum Eimskips lauk með sátt félagsins við Samkeppniseftirlitið sumarið 2021. Með sáttinni viðurkenndi félagið brot, greiddi stjórnvaldssekt að fjárhæð 1,5 milljarðar króna og skuldbatt sig til tiltekinna aðgerða.
Í ákvörðuninni vegna brota Samskipa segir:
„Samráðið í heild sinni var til þess fallið að gera fyrirtækjunum kleift að draga með afdrifaríkum hætti úr samkeppni og hækka eða halda uppi verði gagnvart viðskiptavinum fyrirtækjanna, t.d. með hækkun við endurnýjun samninga, hækkun á gjaldskrám og þjónustugjöldum, upptöku nýrra gjalda, lækkun afslátta o.s.frv. Sameiginleg yfirburðastaða Eimskips og Samskipa á markaðnum, samskipti stjórnenda fyrirtækjanna og aðrir þættir í samráði fyrirtækjanna sköpuðu kjöraðstæður fyrir fyrirtækin til að ná árangri í samráðinu og hagnast á kostnað viðskiptavina og samfélagsins alls.“
Í meðfylgjandi grein má nálgast frekari upplýsingar um málið og hlekk á samantekt og yfirlit. Ákvörðunin í heild kemur inn á síðuna innan skamms:
https://www.samkeppni.is/utgafa/frettir/alvarleg-brot-samskipa-a-samkeppnislogum