Aldrei hefur fleiri farþegum verið vísað frá landinu á Keflavíkurflugvelli við komu þeirra til landsins. Flestir þeirra eru þriðja ríkis borgarar sem koma hingað með flugi frá öðru Schengen ríki. Nú eru 258 frávísunarmál skráð það sem af er ári.
Tölur sem ekki hafa sést áður. Breytt verklag og skipulag löggæslu á flugvellinum hefur eflaust breytt hér miklu ásamt góðu samstarfi við tollgæslu. Ástæður frávísana geta verið margar en þar fer mest fyrir frávísunum einstaklinga frá landinu vegna tengsla þeirra við brotastarfsemi.
Mikilvægt er að starfsemi lögreglu og tollgæslu á Keflavíkurflugvelli sé öflug og vel þjálfaður mannskapur sé til staðar auk nauðsynlegs tækjabúnaðar og viðunandi starfsaðstöðu. Samstarf Evrópuríkja á sviði lögreglusamstarfs og landamæraeftirlits sem byggist á Schengen samningnum er gríðarlega umfangsmikið og krefjandi ekki síst fyrir Ísland svo fjarri meginlandi Evrópu.
Íbúar á Schengen svæðinu eru yfir 400 milljónir. Þeim er heimilt að fara yfir innri landamæri Schengen-svæðisins án þess að landamæraeftirlit fari fram, án tillits til ríkisfangs. Samkvæmt lögum um landamæri er fyrirtækjum sem annast flutning farþega til og frá landinu skylt að afhenda lögreglu upplýsingar um farþega og áhöfn. Þá er lögreglu heimilt að safna og skiptast á upplýsingum um farþega og áhöfn við tollyfirvöld í þágu eftirlits og greiningarstarfs eða vegna rannsókna á ætluðum brotum.
Flest flugfélög veita umbeðnar upplýsingar þar á meðal íslensku flugfélögin. Þó eru flugfélög sem fljúga hingað reglulega sem veita ekki þessar upplýsingar og komast upp með það. Tollayfirvöld geta lagt stjórnvaldssektir á fyrirtæki sem brjóta gegn skyldu til að veita umbeðnar upplýsingar. Lögregla veit ekki til þess að það hafi verið gert. Brýnt er að koma þessu í lag. Lög bjóða ekki annað.