Tekjuskerðing foreldra vegna fæðingarorlofs og umönnunarbils barna hleypur hæglega á milljónum. Þetta kemur fram í nýrri greiningu VR sem kynnt var á fjölmennum morgunverðarfundi. Á fundinum var fjallað um stöðu foreldra ungra barna og samspil leikskóla og vinnumarkaðar.
Í fæðingarorlofi fá foreldrar 80% af launum sínum en þó að hámarki 600 þúsund krónur fyrir skatt. Því fá einstaklingar sem eru með meira en 750 þúsund krónur í mánaðarlaun innan við 80% af þeirri upphæð í fæðingarorlofi. Samkvæmt nýlegri launakönnun VR tilheyrir rúmlega helmingur allra VR félaga þessum hópi, en miðgildi heildarlauna VR félaga er 768 þúsund krónur fyrir skatt. Þetta kom fram í máli Victors Karls Magnússonar, sérfræðings hjá VR, á fundinum í morgun.
VR félagi með þessi laun fær um 530 þúsund krónur útborgaðar en í fæðingarorlofi fær viðkomandi um 430 þúsund krónur. Það getur því munað um hundrað þúsund krónum fyrir hvern mánuð sem tekinn er í fæðingarorlofi. Hjón sem bæði eru með tekjur á við miðgildi heildarlauna VR félaga verða þannig fyrir samanlögðu tekjutapi sem nemur 1,2 milljónum króna, hvernig sem þau kjósa að skipta tólf mánaða fæðingarorlofinu á milli sín. Svipaða sögu er að segja af umönnunarbilinu, sem er sá tími sem líður frá því að fæðingarorlofi lýkur og þar til barn fær leikskólapláss. Miðað við sama dæmi, og 5,5 mánaða umönnunarbil, samsvarar það um 1,4 milljóna króna tekjutapi.
Auk Victors Karls héldu erindi Sunna Símonardóttir, nýdoktor í félagsfræði við Háskóla Íslands, og Kristín Heba Gísladóttir, framkvæmdastjóri Vörðu – rannsóknastofnunar vinnumarkaðarins.
Sunna fjallaði um rannsókn þar sem umfjöllun um leikskólamál og heimgreiðslur var greind í fjölmiðlum á árunum 2020 til 2023. Heimgreiðslur eru lágar fastar greiðslur til foreldra ætlaðar að brúa umönnunarbilið. Umönnunarbil á Íslandi er að mestu brúað af mæðrum sem teygja orlofið sitt og draga úr vinnu sinni að því loknu. Hnignun dagforeldrakerfisins, mygla í skólahúsnæði og ýmis annar „leikskólavandi“ og fjölmiðlaumfjöllun tengd þessum málaflokki varð til þess að það skapaðist umhverfi fyrir umfjöllun um heimgreiðslur. Heimgreiðslur eða umönnunargreiðslur hafa í gegnum tíðina verið gagnrýndar fyrir að vinna gegn jafnrétti og stuðla enn frekar að hinu svokallaða fyrirvinnulíkani, þar sem mæður eru heima að sinna börnum sínum. Erlendar rannsóknir hafa sýnt að mæður með lágar tekjur og lágt menntunarstig séu helst hópurinn sem þiggur slíkar greiðslur. Sunna sagði mikilvægt að vera vakandi fyrir þeirri orðræðu sem birtist í tengslum við leikskólamál.
Kristín Heba, framkvæmdastjóri Vörðu rannsóknarstofnunar vinnumarkaðarins, fjallaði um niðurstöður nýrrar rannsóknar sem lýtur að því að kortleggja stöðu launafólks þegar kemur að því að samræma fjölskyldu og atvinnulíf. Í máli Kristínar Hebu kom meðal annars fram að hærra hlutfall kvenna en karla tekur börn sín með sér í vinnuna vegna frí- og starfsdaga eða 36% á móti 23% karla. Hærra hlutfall kvenna vinnur heima og sinnir barni samhliða auk þess sem hærra hlutfall kvenna en karla taka launalaust leyfi frá vinnu og fær aðstoð frá ættingjum og vinum. Rannsóknin er hluti af stærra rannsóknarverkefni Vörðu sem enn er í gangi. Niðurstöður fyrsta hluta rannsóknarinnar verða birtar í næstu viku.
Líflegar umræður urðu í pallborði að loknum erindum en fyrir svörum sátu Arnar Þór Sævarsson, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga, Arnaldur Grétarsson, faðir, Maj-Britt Hjördís Briem, lögmaður á vinnumarkaðssviði Samtaka atvinnulífsins og Sigurður Sigurjónsson, formaður Félags stjórnenda leikskóla.
Fyrirferðamest var umræðan um gjaldskrárbreytingar á leikskólagjöldum og afleiðingar þess. Ljóst er af umræðum á fundinum að málefni leikskólanna á Íslandi hafa áhrif á allan vinnumarkaðinn og gríðarlega mikilvægt að hér sé við lýði velferðarkerfi sem virkar fyrir foreldra og launafólk. VR mun beita sér af frekari krafti fyrir áframhaldandi umræðum og umbótavinnu á þessu sviði.
Glærurnar frá fundinum má nálgast hé