Um áramót taka gildi ýmsar skattabreytingar sem snerta bæði heimili og fyrirtæki í landinu. Í flestum tilfellum er um að ræða verðlagsuppfærslur, almennt minni en samsvarar verðbólgu liðins árs, en einnig má nefna að stigin voru fyrstu skref að nýju fyrirkomulagi gjaldtöku ökutækja og þá er barnabótakerfið eflt. Hér er fjallað um helstu efnisatriði breytinganna en nánari upplýsingar um einstakar breytingar má finna í greinargerðum viðkomandi lagafrumvarpa á vef Alþingis.
Tekjuskattur einstaklinga
Breytingar verða á tekjuskatti einstaklinga og útsvarsprósentum sveitarfélaga um áramótin í kjölfar þess að undirritað var fjórða samkomulag ríkis og sveitarfélaga um breytingu á fjármögnun lögbundinnar þjónustu sveitarfélaga við fatlað fólk. Í breytingunni felst varanleg tilfærsla fjármuna sem nema 6 ma.kr. árlega frá ríki til sveitarfélaga. Gagnvart einstaklingum verður því engin breyting á skattbyrði, að því gefnu að sveitarfélag breyti útsvari sínu til samræmis við hækkun hámarksútsvars.
Samkvæmt lögum um tekjuskatt í upphafi hvers árs hækka persónuafslátt og þrepamörk tekjuskatts einstaklinga sem nemur hækkun á vísitölu neysluverðs næstliðna tólf mánuði að viðbættu mati á langtímaframleiðni. Miðað er við 1% árlega aukningu framleiðni og er það mat tekið til endurskoðunar á 5 ára fresti, næst fyrir áramótin 2027-2028. Hækkun vísitölu neysluverðs liggur nú fyrir og nemur hún 7,7% á 12 mánaða tímabili. Heildarhækkun viðmiðunarfjárhæða verður því 8,8%.
Í töflunni hér að neðan má sjá skattprósentur, skattleysismörk, persónuafslátt og þrepamörk fyrir árin 2023 og 2024, en þær eru birtar með þeim fyrirvara að ekki liggur fyrir endanlegt meðalútsvar.
Tekjuskattur einstaklinga | 2023 | 2024 | ||||||||||||
Prósenta í 1. þrepi: | 31,45% (þar af 14,67% útsvar) | 31,48% (þar af 14,93% útsvar) | ||||||||||||
Prósenta í 2. þrepi: | 37,95% (þar af 14,67% útsvar) | 37,98% (þar af 14,93% útsvar) | ||||||||||||
Prósenta í 3. þrepi: | 46,25% (þar af 14,67% útsvar) | 46,28% (þar af 14,93% útsvar) | ||||||||||||
Tekjuskattur einstaklinga | 2023 | 2024 | ||||||||||||
Á ári | Á mánuði | Á ári | Á mánuði | |||||||||||
Þrepamörk upp í miðþrep | 4.919.833 | 409.986 | 5.353.634 | 446.136 | ||||||||||
Þrepamörk upp í háþrep | 13.812.143 | 1.151.012 | 15.030.014 | 1.252.501 | ||||||||||
Persónuafsláttur | 715.981 | 59.665 | 779.112 | 64.926 | ||||||||||
Skattleysismörk tekjuskattsstofns | 2.276.570 | 189.714 | 2.474.942 | 206.245 | ||||||||||
Skattleysismörk launa* | 2.371.472 | 197.619 | 2.578.065 | 214.839 |
*að teknu tilliti til lögbundinnar iðgjaldsgreiðslu launþega í lífeyrissjóð
• Gögn málsins á Alþingi
Tekjuskattur lögaðila
Um áramótin hækkar álagningarprósenta tekjuskatts allra lögaðila um eitt prósentustig. Hækkunin er tímabundin fyrir tekjuárið 2024 og mun koma fram í álagninu lögaðila árið 2025.
Tekjuskattur lögaðila (tekjuár) | 2023 | 2024 |
Hluta- og einkahlutafélög | 20% | 21% |
Sameignar – og samlagsfélög | 37,6% | 38,4% |
Erlendir aðilar
| 12% | 13% |
Barnabætur
Umfangsmiklar breytingar verða á barnabótum um áramótin en þá tekur gildi síðari hluti kerfisbreytinga sem samþykktar voru á haustþingi 2022. Fyrri hluti breytinganna tók gildi síðastliðin áramót þegar stuðningur var aukinn, sér í lagi til einstæðra foreldra, og jafnaður milli frumburða og annarra barna. Dregið var úr skerðingum með afnámi efri skerðingarmarka en viðbótarbarnabætur til barna undir sjö ára voru aftur á móti lækkaðar.
Síðari áfangi kerfisbreytinganna tekur gildi nú um áramótin og felur í sér hækkun fjárhæða barnabóta og skerðingarmarka en frekari lækkun viðbótarbarnabóta vegna barna undir sjö ára aldri. Sú breyting verður samhliða að í stað ólíkra skerðingarhlutfalla eftir barnafjölda verður einungis eitt skerðingarhlutfall með öllum börnum, einnig börnum yngri en sjö ára.
Nú þegar báðir áfangar hafa komið til framkvæmda munu um 3.000 fleiri fjölskyldur fá barnabætur vegna breytinganna, auk þess sem að grunnfjárhæðir og skerðingarmörk eru hærri. Til síðari áfangans tilheyrðu einnig samtímabarnabætur sem gert var ráð fyrir að tækju mið af barnastöðu eftir ársfjórðungum og var stefnt að gildistöku þeirra í ársbyrjun 2024. Það hefur hins vegar ekki gengið eftir og verður fyrirkomulag greiðslu barnabóta óbreytt á árinu 2024 frá því sem verið hefur. Barnabætur verða því greiddar fjórum sinnum á ári vegna tekna ársins 2023 þar sem tvær greiðslur eru fyrirframgreiddar upp í álagningu ársins og við álagningu er fyrirframgreiðslan gerð upp í tveimur greiðslum. Áfram verður unnið að upptöku og útfærslu samtímabarnabóta. Í frétt á vef ráðuneytisins frá árinu 2022 er nánar fjallað um breytingarnar.
Viðmiðunarfjárhæðir barnabóta 2024 | Einstætt foreldri | Foreldrar í sambúð |
---|---|---|
Skerðingarmörk | 4.893.000 | 9.785.000 |
Fjárhæð með hverju barni | 460.000 | 310.000 |
Viðbótarbarnabætur með börnum yngri en 7 ára | 130.000 | 130.000 |
Skerðingarhlutfall með hverju barni | 5% | 5% |
Vaxtabætur
Engar breytingar verða á kerfi vaxtabóta frá fyrra ári en um síðustu áramót voru eignaskerðingarmörk hækkuð um 50%.
Nefskattar
Útvarpsgjald og gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra hækka um 3,5% um áramótin eða nokkuð minna en ef miðað væri við almennar verðlagsbreytingar ársins. Það er breyting frá fyrra ári þegar þau voru látin fylgja verðlagsforsendum fjárlaga og hækkuðu því um 7,7%. Útvarpsgjald verður eftir breytinguna 20.900 kr. og gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra 13.749 kr. Gjöldin eru lögð á einstaklinga 16-69 ára á viðkomandi tekjuári sem eru með tekjustofn yfir tekjumörkum. Undanþegnir gjöldunum eru elli- og örorkulífeyrisþegar sem dvelja á dvalar- og hjúkrunarheimilum.
Nefskattar | 2023 | 2024 |
Útvarpsgjald | 20.200 kr. | 20.900 kr. |
Framkvæmdasjóður aldraða | 13.284 kr. | 13.749 kr. |
Erfðafjárskattur
Skattfrelsismörk erfðafjárskatts tekur árlegri breytingu miðað við þróun vísitölu neysluverðs og hækkar úr 5.757.759 kr. í 6.203.409 ársbyrjun 2024. Er það í samræmi við samþykktar breytingar við afgreiðslu fjárlaga 2021 þar sem skattfrelsismarkið var hækkað úr 1,5 m.kr. í 5 m.kr. og framvegis látið taka árlegri breytingu miðað við þróun vísitölu neysluverðs. Skatthlutfallið helst óbreytt.
Erfðafjárskattur | 2023 | 2024 |
Skatthlutfall | 10% | 10% |
Skattfrelsismörk | 5.757.759 kr. | 6.203.409 kr. |
Krónutölugjöld á eldsneyti, áfengi, tóbak o.fl.
Helstu krónutölugjöld | 2023 | 2024 |
Bensín- og olíugjöld (kr./ltr.) | ||
Almennt vörugjald á bensín | 32,55 | 33,70 |
Sérstakt vörugjald á bensín | 52,45 | 54,30 |
Olíugjald | 72,85 | 75,40 |
Kolefnisgjald | ||
Gas- og dísilolía (kr./ltr.) | 13,00 | 13,45 |
Bensín (kr./ltr.) | 11,30 | 11,70 |
Brennsluolía (kr./kg) | 15,95 | 16,50 |
Jarðolíugas (kr./kg) | 14,15 | 14,65 |
Bifreiðagjald (kr.)* | ||
Grunngjald bifreið < 3.500 kg. | 15.080/170 | 20.000/176 |
Grunngjald bifreið > 3.500 kg. | 67.075/2,81/104.950 | 69.425/2,91/108.625 |
Kílómetragjald (kr./km.) | ||
Kílómetragjald | (allir gjaldflokkar hækka um 3,5%) | |
Áfengisgjald (kr./cl.) | ||
Bjór | 142,15 | 147,15 |
Léttvín | 129,50 | 134,05 |
Sterkt vín | 175,25 | 181,40 |
Tóbaksgjald | ||
Vindlingar (kr./pk.) | 583,80 | 604,25 |
Neftóbak (kr./gr.) | 32,45 | 33,60 |
Annað (kr./gr.) | 32,45 | 33,60 |
*Sýnt er grunngjald á hvert ökutæki, einingagjald á hvert gr. umfram 168 gr. CO2 og hámarksgrunngjald. Hér er miðað við skráða losun skv. evrópsku aksturslotunni.
Áfengisgjald á bjór sem framleiddur er af litlum og sjálfstæðum framleiðanda
Frá áramótum verður heimilt að lækka áfengisgjald um 50% fyrir tiltekið magn áfengra drykkja sem falla undir 1. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 96/1995 um gjald af áfengi og tóbaki, og framleiddir eru af litlum og sjálfstæðum framleiðendum. Nánar tiltekið er hér um að ræða öl sem flokkast í vörulið 2203 í tollskrá og vörur sem innihalda blöndur af öli og óáfengum drykk og flokkast í vörulið 2206 í tollskrá (hér nefnt bjór). Heimild til lækkunar á áfengisgjaldi á hverju almanaksári fyrir hvern framleiðanda afmarkast við sem nemur 200 þús. lítrum af bjór miðað við 5% styrkleika.
Virðisaukaskattur
Um áramótin fellur úr gildi niðurfelling VSK við kaup á nýjum rafmagns- eða vetnisbíl. Þess í stað kemur styrkur sem veittur verður úr Orkusjóði við kaup á losunarfríum ökutækjum með engan útblástur.
Niðurfelling VSK við kaup á hjólum hefur verið framlengd til ársloka 2024. Hún nær til rafmagns- og vetnisbifhjóla, léttra bifhjóla, rafmagnsreiðhjóla, hlaupahjóla og venjulegra fótstiginna reiðhjóla. Hámarks niðurfelling VSK nemur sömu fjárhæð og áður í öllum flokkum. Sjá töflu.
Hámark á niðurfellingu VSK við kaup á hjólum (kr.) | 2024 |
Rafmagns- og vetnisbifhjól | 1.320.000 |
Létt bifhjól | 96.000 |
Rafmagnsreiðhjól | 96.000 |
Önnur reiðhjól | 48.000 |
Við sölu ökutækjaleiga á notuðum rafmagnsbíl er heimild til að fella niður VSK framlengd til ársloka 2025. Hið sama gildir um sölu ökutækjaleiga á notuðum tengiltvinnbíl. Niðurfelling nemur að hámarki 1.320.000 kr. við sölu á notuðum rafmagnsbíl en 480.000 kr. við sölu á notuðum tengiltvinnbíl.
Kílómetragjald á rafmagns-, vetnis- og tengiltvinnbíla
Í byrjun árs 2024 verður tekið upp kílómetragjald fyrir akstur rafmagns-, vetnis- og tengiltvinnbíla í flokki fólks- og sendibíla. Með lögunum er tekið fyrra skrefið í innleiðingu á nýju tekjuöflunarkerfi af ökutækjum og eldsneyti með upptöku kílómetragjalds frá og með 1. janúar 2024 vegna notkunar rafmagns-, vetnis- og tengiltvinnbíla á vegakerfinu. Gjaldið mun byggja á fjölda ekinna kílómetra og því munu þeir borga sem nota. Nýju kerfi er ætlað að endurspegla raunverulega notkun á vegasamgöngum. Gjaldið verður 6 kr./km fyrir rafmagns- og vetnisbíla en 2 kr./km fyrir tengiltvinnbíla. Fyrirhugað er að síðara skrefið verði stigið á árinu 2025 með innleiðingu kílómetragjalds vegna notkunar allra ökutækja á vegakerfinu, þ.m.t. dísel- og bensínbíla. Frumvarp um þetta verður lagt fram á næsta ári.
Gistináttaskattur
Gistináttaskattur kemur til framkvæmda á ný um áramót en hann var felldur niður tímabundið vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Þær breytingar verða frá fyrri álagningu skattsins að nú leggst hann einnig á rekstraraðila skemmtiferðaskipa þegar skipin dvelja innan tollsvæðis Íslands. Skatturinn leggst sem fyrr á hverja selda gistináttaeiningu, t.d íbúð, herbergi á hóteli, svefnpokapláss eða stæði á tjaldvæði. Fjárhæðir skattsins verða þó aðrar en þegar hann var síðast lagður á í ársbyrjun 2020.
Gistináttaskattur á selda einingu | 2020 | 2024 |
Á tjaldsvæði | 300 kr. | 300 kr. |
Í landi önnur en á tjaldsvæði | 300 kr. | 600 kr. |
Í skipi | 1.000 kr. |