Úttekt á íslenska kvikmyndaendurgreiðslukerfinu unnin af breska ráðgjafafyrirtækinu Olsberg•SPI var kynnt á Kvikmyndaráðstefnu í Hörpu sl. föstudag.
Lykilniðurstöður:
- Íslenska kvikmyndaendurgreiðslukerfið er í fremstu röð á heimsvísu. Samskonar endurgreiðslukerfi eru til staðar í yfir 100 löndum og ríkjum.
- Nánast 7-faldur magnari. Fyrir hverja krónu sem fór í gegnum endurgreiðslukerfið á úttektartímabilinu (2019-2022) var ávinningurinn fyrir íslenskt efnahagslíf 6,8 krónur miðað við bein, óbein og afleidd áhrif.
- Olsberg SPI áætlar að á tímabilinu 2019 til 2022 hafi endurgreiðsluhæf framleiðsluverkefni í kvikmynda- og sjónvarpsþáttagerð varið á bilinu 9,7–28,9 milljörðum króna á Íslandi á hverju ári. 86% útgjaldanna hefðu ekki átt sér stað á Íslandi ef ekkert endurgreiðslukerfi væri fyrir hendi.
- Efnahagsleg umsvif kvikmyndaiðnaðarins á tímabili úttektarinnar eru 238 milljarðar króna.
- Heildaratvinnutekjur þeirra sem störfuðu hér á landi við kvikmyndagerð í tengslum við endurgreiðsluhæf framleiðsluverkefni á árunum 2019-2022 eru 48,9 milljarðar króna.
- 900 manns störfuðu hérlendis við endurgreiðsluhæf kvikmyndaverkefni árið 2022. Samtals 4.200 bein, óbein eða afleidd störf/verkefni.
Föstudaginn 5. apríl sl. stóð menningar- og viðskiptaráðuneytið fyrir kvikmyndaráðstefnu í Hörpu undir yfirskriftinni Aukum verðmætasköpun í Kvikmyndagerð á Íslandi til framtíðar. Ráðstefnan var ákaflega vel sótt og mikill áhugi fyrir niðurstöðum úttektar breska ráðgjafafyrirtækisins Olsberg•SPI um efnahagslegan ávinning af íslenska kvikmyndaendurgreiðslukerfinu. Endurgreiðslukerfi eru talin vera hornsteinn alþjóðlegra verkefna í kvikmyndaiðnaði og eru virk í yfir 100 löndum og ríkjum.
„Íslandi hefur tekist að koma á afar vel heppnuðu endurgreiðslukerfi og gera það þjóðhagslega hagkvæmt. Kerfið er einfalt og virkar nokkuð hratt sem er lykilinn. Það eru lönd sem bjóða upp á hærri endurgreiðslu en Ísland, en kerfisvirknin er oft á tíðum svifasein og flókin sem dregur úr skilvirkni þeirra í samanburði við það kerfi sem hér hefur verið komið á,“ segir Jonathan Olsberg einn eigandi Olsberg•SPI og sérfræðingur í efnahagslegum áhrifum kvikmyndagerðar. Hann bendir einnig á mikilvægi þess að byggja á sterkum grunni og segir að íslenska endurgreiðslukerfið hefði aldrei náð þessum mikla árangri ef ekki væri fyrir vandaða innlenda kvikmyndagerð og aðgengi að fagfólki.