Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, gerði athugasemdir við frumvarp Bjarkeyjar Olsen Gunnarsdóttur, matvælaráðherra í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag. Frumvarpið felur meðal annars í sér ótímabundin leyfi til sjókvíaeldisfyrirtækja. Kristrún segir ríkisstjórnina á vegferð að gefa fiskeldisfyrirtækjum íslenska firði um aldur og ævi.
Fyrirhugað frumvarp matvælaráðherra felur í sér að rekstrarleyfi í sjókvíaeldi séu ótímabundin en þau eru takmörkuð við 16 ár miðað við núgildandi lög frá árinu 2008. Þetta kemur fram á vef ríkisútvarpsins.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir mælir fyrir frumvarpinu á Alþingi á morgun
„Lengi getur vont versnað hjá hæstvirtri ríkisstjórn“ sagði Kristún í upphafi fyrirspurnar sinnar. „Nú ætlar þessi ríkisstjórn að gefa auðlindir þjóðarinnar eða nánar tiltekið ríkisstjórnin ætlar að afhenda fiskeldisfyrirtækjum firðina okkar varanlega. Með ótímabundnum rekstrarleyfum sem hafa hingað til verið tímabundin til 16 ára í senn með möguleika á framlengingu að þeim tíma liðnum,“ sagði hún í viðtali við RÚV.
Leyfi veitt án endurgjalds verða ótímabundin
Kristrún benti á að nánast öll leyfi til 16 ára voru gefin út án endurgjalds og undirstrikaði að öll slík leyfi verði núna ótímabundin. Þar á meðal þau sem veitt voru án endurgjalds.
„Af hverju mega þessi leyfi ekki vera tímabundin eins og flest önnur leyfi á náttúruauðlindum? Meira segja í orkuvinnslu, þar sem fjárfestingar eru sannarlega bundnar til langs tíma og borga sig til baka á áratugum, þá fá orkufyrirtækin ekki nema tímabundin rekstrarleyfi,“ sagði Kristrún og spurði hvort matvælaráðherra teldi það líklegt að samþykkt yrði í samfélaginu að laxeldisfyrirtæki notuðu íslenska firði um aldur og ævi.
Nánar má lesa um málið á vefnum rúv.is