Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að halda vöxtum bankans óbreyttum. Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, verða því áfram 9,25%.
Þetta kemur fram í yfirlýsingu Seðlabankans sem birtist en þar kemur fram að verðbólga haldi áfram að hjaðna og hafi mælst 6% í apríl. Þá hafi verðbólga án húsnæðisliðar minnkað hraðar og að undirliggjandi verðbólga sé komin niður í 5%. Verðbólguvæntingar hafi lækkað á suma mælikvarða en séu enn yfir markmiði.
Peningastefnunefnd segir að áhrif nýgerðra kjarasamninga og aðgerða í ríkisfjármálum séu ekki að fullu komin fram. Enn sé spenna til staðar á vinnumarkaði þótt hægt hafi á eftirspurn. Þetta geti ýtt undir launaskrið með tilheyrandi áhrifum á verðbólgu.
Því sé núverandi aðhaldsstig áfram hæfilegt til að koma verðbólgu í markmið innan ásættanlegs tíma.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri, Rannveig Sigurðardóttir varaseðlabankastjóri peningastefnu og Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur og framkvæmdastjóri sviðs hagfræði- og peningastefnu, munu saman fara yfir ákvörðun peningastefnunefndar á fréttamannafundi klukkan 09:30.