Þrír karlar og ein kona voru í dag í Héraðsdómi Reykjavíkur úrskurðuð í gæsluvarðhald til föstudags, 27. september, að kröfu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í þágu rannsóknar hennar á innbrotum í umdæminu.
Um er að ræða innbrot í tvær verslanir á höfuðborgarsvæðinu seint á sunnudagskvöld og aðfaranótt mánudags. Málin voru tilkynnt til lögreglu í gærmorgun, en önnur verslunin er í Kópavogi og hin í Reykjavík. Úr þeim var stolið miklum verðmætum. Fjórmenningarnir voru handteknir á höfuðborgarsvæðinu og á Keflavíkurflugvelli, en þrír til viðbótar eru jafnframt í haldi lögreglu vegna málsins.
Ekki liggur fyrir ákvörðun um hvort einnig verði krafist gæsluvarðhalds yfir þeim, en allir sjö hinna handteknu eru erlendir ríkisborgarar.
Rannsóknin er umfangsmikil, en farið hefur verið í húsleitir, auk þess sem lagt hefur verið hald á tvö ökutæki.
Ekki er hægt að veita frekari upplýsingar um málið að svo stöddu.