Elly er komin aftur! Í takmarkaðan tíma stígur Katrín Halldóra aftur á Stóra sviðið sem Elly Vilhjálms í rómaðri sýningu Gísla Arnar Garðarssonar eftir handriti Gísla og Ólafs Egils Egilssonar.
Sýningin sló á sínum tíma öll met og naut fádæma vinsælda. Nú snýr Elly aftur vegna fjölda áskorana!
Katrín Halldóra Sigurðardóttir fer með hlutverk Ellyar í sýningunni og leikur hennar er hreint út sagt frábær og fær allar mögulegar stjörnur fyrir bæði söng og leik og í raun var eins og Elly og Raggi Bjarna stæðu á sviðinu. Því bæði Katrín Halldóra og Björgvin Franz Gíslason sem leikur Ragga Bjarna heitinn, í sýningunni, voru stórkostleg.
Björgvin Frans var með alla takta Ragga Bjarna og beitti þeim af einstakri snilld. Björgvin Frans á stórleik í þessari sýningu og er það mat Fréttatímans og fleiri sem rætt var við, að í sýningunni sjái áhorfendur persónulegan leiksigur Björgvins Frans.
Leikstjórinn Gísli Örn Garðarsson fær sérstakar þakkir fyrir frábæra leikstjórn og sýninguna sem hefur slegið öll met og er fimm stjörnu meistarastykki.
Með önnur hlutverk fara þau Björn Stefánsson, Hjörtur Jóhann Jónsson og Katla Margrét Þorgeirsdóttir sem skiluðu öll sem eitt, hlutverkum sínum af mikilli snilld og fágun enda mjög reyndir og góðir leikarar.
Um Elly
Hún bjó yfir óræðri dulúð og töfraði áhorfendur með söng sínum og leiftrandi persónuleika; túlkunin hógvær og ígrunduð, röddin silkimjúk og hlý. Líf Ellyjar varð stundum efni í sögusagnir og slúður sem hún hirti lítið um að svara því hún var dul og forðaðist sviðsljós fjölmiðlanna.
Í þessari mögnuðu sýningu fetar Katrín Halldóra í fótspor einnar dáðustu söngkonu þjóðarinnar og syngur sig inn í hjörtu áhorfenda sem aldrei fyrr.
,,Fimm stjörnu meistarastykki“
Svo vel gekk að sýningin sló áhorfendamet í Borgarleikhúsinu í júní árið 2019, en hún var frumsýnd þann 18. mars 2017. Áhorfendafjöldinn var 104.446 að lokinni lokasýningu.
Fréttatíminn gefur sýningunni og öllum sem að henni standa fimm stjörnur af jafn mörgum mögulegum. Þetta er sýning sem bara alls ekki má sleppa að sjá! Hér er hægt að nálgast miða á Elly.