Sirkussýningar sumarsins hefjast í næstu viku
Mánudaginn næstkomandi, 9. júlí, mun sirkustjaldið Jökla rísa í Vatnsmýri fyrir sirkussýningar sumarsins. Það verður á sama stað og sirkushátíðin Volcano var haldin árið 2013, en í kjölfarið á henni tókst Sirkus Íslands að safna fyrir eigin sirkustjaldi í gegnum Karolina Fund og hefur flakkað um landið með sýningar sínar síðan.
Sirkushópurinn sér sjálfur um að reisa tjaldið og svo munu lokaæfingar fyrir sýningarnar fara fram í tjaldinu fram að frumsýningardegi, föstudaginn 13. júlí.
Tvær sýningar verða í boði að þessu sinni; annars vegar 10 ára afmælissýning Sirkus Íslands, fyrir alla fjölskylduna, og hins vegar fullorðinssirkusinn Skinnsemi, þar sem áhorfendur skulu hafa náð 18 ára aldri.
Sýningar fara fram helgarnar 13. – 15. júlí og 20. – 22. júlí í Reykjavík, og um verslunarmannahelgina 3. – 5. ágúst á Akureyri.
Miðasala fer fram á www.tix.is og við tjaldið tveimur tímum fyrir sýningar, en nánari upplýsingar um sýningarnar má finna á www.sirkus.is.
Umræða