17. júní er þjóðhátíðardagur okkar Íslendinga en hann fer nú, ár eftir ár, nánast framhjá án þess að vekja nokkra alvöru tilfinningu hjá þjóðinni. Hvar eru fánaskreytingarnar? Hvar eru skrúðgöngurnar sem fólk mætti í með reisn? Hvar eru öskrin „lifi þú enn, gamla Ísland?“ Við höfum fyrir löngu hætt að halda upp á daginn okkar eins og sjálfsagt er fyrir hverja þjóð með snefil af stolti og reisn.

Í staðinn sópast fólk saman í tugþúsundatali á Gay Pride og Menningarnótt. Þetta er í sjálfu sér ekki vandamál ef þær væru ekki orðnar að okkar helstu „þjóðhátíðum“.
Það segir sitt þegar fólk hefur meiri áhuga á því að klappa fyrir regnbogafánum og að dansa í miðbænum en að minnast sjálfstæðis þjóðarinnar. Það er einfaldlega merki um siðrof og úrkynjun. Við höfum misst allan fókus. Sama á við um sjómannadaginn, þjóðin er hætt að halda upp á hann en sjávarútvegurinn hefur byggt upp land þjóðarinnar síðustu þúsund ár. Sjómenn eru ekki heiðraðir.
Ég spyr: væri ekki einfaldlega skynsamlegt að sameina þetta allt á 17. júní? Ef við erum svona heit fyrir gleði og fjölbreytileika, af hverju má það ekki vera innan ramma þjóðardagsins? Af hverju má þjóðin ekki standa saman þann dag og sýna samstöðu – án þess að gleyma rótum sínum?
En staðan er verri en bara fánaleysi og áhugaleysi. Við erum að glata landinu okkar. Við seljum það í bútum, í gegnum laxeldisfyrirtæki í erlendri eigu og með því að flytja inn fólk frá öðrum heimsálfum í stórum stíl. Þetta væri allt í lagi ef við værum þjóð sem væri að styrkja sig – en við erum að veikja okkur. Hvar er sómakenndin? Hvar er ættjarðarástin?
Það þarf að rífa sig upp. Endurvekja þjóðarstolt og endurvekja 17. júní sem dag þar sem við fögnum, ekki bara fortíðinni heldur framtíðinni líka – á okkar forsendum. Með virðingu fyrir menningu okkar, tungu og landi.
Því ef við stöndum ekki saman um hver við erum, þá verðum við fljótlega ekki neitt.

