Strandveiðisjómaður lést í dag eftir að bátur hans sökk úti af Patreksfirði.
Frá þessu greinir Lögreglan á Vestfjörðum. Fyrr í dag var greint frá því að bátur mannsins hefði sokkið á tólfta tímanum í morgun með einn innanborðs.
Í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni sagði að skipstjóri fiskibáts í grenndinni hefði haft samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar og tilkynnt að báturinn væri sokkinn og að einn maður væri í sjónum.
Þyrla Landhelgisgæslunnar og áhöfnin á björgunarskipinu Verði hefðu verið kallaðar út á mesta forgangi. Þá hefðu öll skip á svæðinu verið beðin um að halda á staðinn. Áhöfnin á björgunarskipinu hefði verið fyrst viðbragðsaðila á vettvang og náð manninum úr sjónum. Hann hefði verið fluttur með björgunarskipinu til Patreksfjarðar.