Lögreglan handtók tvo í gær eftir húsleit við Austurbrún 21, í Laugardal annars vegar og í Kópavogi hins vegar. Alls eru fimm í haldi í tengslum við rannsókn lögreglunnar á Norðurlandi eystra á skipulagðri glæpastarfsemi.
Lögreglan á Norðurlandi eystra greinir frá í tilkynningu að hún hafi ráðist í tvær húsleitir í gær, annars vegar í Laugardal í Reykjavík og hins vegar í Kópavogi. Þá var gerð húsleit á dögunum á Raufarhöfn en lögreglan rannsakar nú skipulagða glæpastarfsemi og fíkniefnaframleiðslu. Lögreglan hefur nú samtals ráðist í sex húsleitir í tengslum við málin.
Lögregla segir að tveir hafi verið handteknir í aðgerðum gærdagsins. Alls eru fimm manns nú í gæsluvarðhaldi og í dag verður lagt mat á hvort farið verði fram á gæsluvarðhald yfir þeim sjötta, að sögn lögreglu.
Fyrstu aðgerðir voru þann 18. júní síðastliðinn en þá var ráðist í húsleit á þremur stöðum. Þann dag var ráðist í húsleit á Aðalbraut 37 á Raufarhöfn og Þórólfsgötu 5 í Borgarnesi, auk annars húss á höfuðborgarsvæðinu. Síðan þá hefur verið ráðist í húsleitir á þremur stöðum til viðbótar, þar með talin aðgerð gærdagsins við Austurbrún 21 í Laugardal.