Foreldrar hafa ekki verið upplýstir um rannsókn lögreglu á meintu kynferðisbroti sem kom upp í síðustu viku
Starfsmaður í leikskólanum Múlaborg er grunaður um brot gegn fleiri en tíu börnum. Þá hefur lögregla til rannsóknar kynferðisbrot í öðrum leikskóla í Reykjavík sem kom upp í síðustu viku.
Ríkisútvarpið fjallaði ítarlega um málið og þar kemur fram að lögregla fékk í síðustu viku tilkynningu um kynferðisbrot í leikskóla í Reykjavík. Starfsmaður leikskólans var handtekinn og teknar voru skýrslur af honum og fleiri starfsmönnum, áður en hann var látinn laus.
Bylgja Hrönn Baldursdóttir, yfirmaður kynferðisbrotadeildar lögreglu, staðfestir í samtali við fréttastofu rúv, að málið sé til rannsóknar. Hún gat að öðru leyti lítið tjáð sig um málið en sagði rannsókn miða vel. Reykjavíkurborg vildi ekki tjá sig um málið þegar eftir því var leitað, sagði það viðkvæmt og vísaði á lögreglu.
Samkvæmt upplýsingum fréttastofu hafa foreldrar ekki verið upplýstir um rannsókn lögreglu á meintu kynferðisbroti sem kom upp í síðustu viku.