Arnþrúður Karlsdóttir og Pétur Gunnlaugsson ræddu í þættinum Fréttir vikunnar við Vigdísi Hauksdóttur, lögfræðing og fyrrverandi þingmann og borgarfulltrúa, um fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar.

Vigdís gagnrýndi harðlega hvernig ríkissjóður væri nýttur og sagði að stjórnvöld færu með ríkissjóð til að fjármagna ýmis alþjóðleg verkefni á meðan brýn innanlandsmál væru látin sitja á hakanum.
Kom fram í viðtalinu að ríkissjóður hefði verið notaður eins og Hraðbanki sérstaklega á Covid tímanum og eyðslan héldi botnlaust áfram. Hlusta má á þáttinn í spilaranum hér að neðan.
Gríðarleg útgjöld til erlendra verkefna og ferðalaga ráðherra
Vigdís sagði að stór hluti nýrra útgjalda færi í framlög til stríðsreksturs, vopnakaupa og loftslagsverkefna, auk þess sem ráðstefnur og ferðalög ráðherra kostuðu ríkissjóð stórar fjárhæðir. Hún benti á að Ísland hefði skuldbundið sig til að verja 1,5% af vergri landsframleiðslu til varnarmála á næstu árum sem hún taldi grundvallarbreytingu frá fyrri stefnu landsins.
Nauðsynlegt að nota skattfé almennings til innlendra málefna
Vigdís sagði að fjármunum ætti fremur að verja til verkefna sem skiptu almenning mestu máli: lækkunar vaxta, húsnæðisúrræða fyrir ungt fólk, heilbrigðiskerfis, þjónustu við aldraða og öryrkja og uppbyggingar varasjóða vegna náttúruhamfara. Kom fram í þættinum sú upprifjum að Almenni varasjóðurinn sem var ætlaður til viðbragða vegna náttúruhamfara hefðu verið tæmdur og fjármunum verið varið í skrautlega ráðstefnu, eins og ráðstefnu Evrópuráðsins í Hörpu og vopnakaup. Þegar eldgosið byrjaði í námunda við Grindavík og reisa átti varnargarðana þá hefði komið í ljós að varasjóðurinn hefði verið tæmdur í „gæluverkefni“.
Varar við skuldsetningu ríkissjóðs og álagi á heimilin
Að sögn Vigdísar hafi þessi stefna leitt til vaxandi skuldsetningar ríkissjóðs sem að lokum bitni á heimilunum með hærri sköttum og vöxtum. Hún sagði að almenningur sæti nú undir auknu fjárhagslegu álagi á sama tíma og stjórnvöld nýttu ríkissjóð fyrir erlendar skuldbindingar fram úr hófi. Í því sambandi sagði Vigdís að spennandi væri að sjá fjáraukalögin.
Verður að beita verulegu aðhaldi í opinberum fjármálum
Vigdís hvatti til þess að ríkissjóður yrði nýttur með meiri varfærni og að forgangsraða þyrfti brýnni innlendri uppbyggingu á kostnað erlendra verkefna og skuldbindinga. Hún sagði að þjóðin ætti rétt á því að fjármunir skattgreiðenda væru nýttir fyrst og fremst til að bæta lífskjör innanlands og efla grunnþjónustu ríkisins.
Hlusta má á ítarlegri umfjöllun í spilaranum hér að neðan.