
Nýjar tillögur Reykjavíkurborgar um styttri dvalartíma, skráningarskyldu og hækkun gjaldskrár leikskóla eru reiðarslag fyrir barnafjölskyldur og jafnrétti. Þær valda ASÍ og BSRB gríðarlegum áhyggjum. Í stað raunverulegra aðgerða til að fjölga starfsfólki, og treysta grundvöll leikskólastarfsins, er verið að þrýsta á foreldra að draga úr leikskóladvöl barna sinna og hækka gjaldskrá verulega á þau sem ekki hafa tök á því.
Uppbyggingin á drögum að nýrri gjaldskrá er mjög flókin og tekjutengingar og afslættir eru margþættir. Það verður erfitt fyrir foreldra að átta sig á endanlegu gjaldi og þeim áhrifum sem breytingar á tekjum eða þörf fyrir fulla dagvistun munu hafa á leikskólagjöld. ASÍ og BSRB hafa greint áhrif tillagnanna á gjöld foreldra fyrir leikskóladvöl barna sinna. Tekjumörkin í tillögum að nýrri gjaldskrá, sem afslættir miðast við, eru mjög lág. Þannig fá einstæðir foreldrar með laun talsvert undir meðallaunum á vinnumarkaði engan afslátt og foreldrar í sambúð sem bæði eru með laun rétt yfir lægstu launum greiða fullt gjald.


Breytingarnar á gjaldskránni, sem ætlað er að mynda hvata til að stytta dvalartíma en eru í raun refsing fyrir þau sem þurfa heilsdagspláss, hafa lang mest áhrif til hækkunar hjá einstæðum foreldrum með mánaðartekjur yfir 542.000 kr. Þá auka breytingarnar einnig verulega gjaldtöku á sambúðarfólk með mánaðartekjur yfir 396.000 kr. á mann sem þurfa á dagvistun að halda í 8 stundir á dag eða meira. Sem dæmi hækka leikskólagjöld einstæðra foreldra sem nýta skráningardaga og eru með tekjur á bilinu 542.000 til 792.000 á mánuði um 65% ef barnið er 8 tíma á dag á leikskólanum og um 100% ef dvalartíminn er 8,5 tímar. Hafi foreldrið tekjur yfir 792.000 kr. á mánuði, sem er rétt undir miðgildi tekna, hækka leikskólagjöldin um 120% fyrir 8 tímana og 185% fyrir 8,5 tíma.
Leikskólinn er fjöregg fjölskyldustefnunnar
Leikskólinn er eitt helsta jöfnunar- og jafnréttistæki sem byggt hefur verið upp hér á landi. Skólarnir eru grundvöllur farsællar mennta- og fjölskyldustefnu og allar breytingar sem veikja þessa þætti kerfisins grafa undan velferð barnafjölskyldna. Foreldrar treysta á leikskólana sem eru lykilforsenda fyrir atvinnuþátttöku beggja foreldra og samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs. Leikskólanir hafa auk þess veitt barnafjölskyldum mikilvægan stuðning í daglegu lífi
Mörg þeirra sem starfa í leikskólunum eru félagsfólk í aðildarfélögum ASÍ og BSRB. Þau, flest konur, starfa á lágum launum undir miklu álagi vegna manneklu og húsnæðisvanda. Val Reykjavíkurborgar stendur á milli þess að fjölga starfsfólki og bæta starfsaðstæður eða fækka leikskólastundum barna með þeim áhrifum sem að ofan er lýst. Koma má í veg fyrir það með því að gera störfin á leikskólunum eftirsóknarverðari með betri kjörum.
Nú reynir á forystuhlutverk Reykjavíkur
Vandi leikskólastigsins er kerfisbundinn, snýr að vanfjármögnun og skorti á langtímastefnu. Viðbrögð sveitarfélaga hafa hingað til einkennst af bráðabirgðalausnum sem varpa byrðum yfir á foreldra og starfsfólk og hér bætist Reykjavíkurborg í hópinn.
Sveitarfélög eiga að hafa metnað til að byggja samfélag okkar áfram á grunngildum jafnaðar og jafnréttis. Það veldur vonbrigðum að Reykjavíkurborg sem hefur verið leiðandi í þjónustu við fjölskyldur skuli leggja fram tillögur sem þessar. Við skorum á meirihlutann í Reykjavík að draga þessar tillögur til baka og finna lausnir sem marka upphafið að endurreisn leikskólakerfisins á Íslandi.
Finnbjörn A. Hermannsson er forseti ASÍ
Sonja Ýr Þorbergsdóttir er formaður BSRB