Ný stöðutaka aðgerðahóps stjórnvalda gegn ofbeldi meðal og gegn börnum sýnir að á undanförnum árum hefur orðið veruleg vitundarvakning í íslensku samfélagi um ofbeldi gegn börnum. Í þessari stöðutöku er sjónum beint að börnum sem eru þolendur ofbeldis, en síðasta stöðutaka aðgerðahópsins fjallaði um börn sem sýna áhættuhegðun eða beita ofbeldi.
Tilkynningum til barnaverndar og lögreglu hefur fjölgað jafnt og þétt, einkum vegna heimilisofbeldis, og sú þróun heldur áfram árið 2025. Gögnin sýna að stúlkur eru oftar þolendur kynferðisofbeldis á meðan drengir verða oftar fyrir líkamlegu ofbeldi. Þá eru vísbendingar um að einelti og líkamsárásir meðal drengja á miðstigi grunnskóla hafi aukist á síðustu árum. Þrátt fyrir aukna meðvitund og bætt viðbrögð þjónustukerfa eru biðlistar eftir sértækum úrræðum enn of langir, einkum hjá Barnahúsi, og mikilvægt er að tryggja gæði þjónustunnar þrátt fyrir álag.
Kerfislægar áskoranir kalla á samræmingu og betri nýtingu gagna
Greiningin varpar ljósi á kerfislægar áskoranir sem bregðast þarf við, þar á meðal skort á samræmdum gögnum milli stofnana og takmarkaðar upplýsingar um feril mála og árangur þjónustu. Til að bæta yfirsýn og samhæfingu þarf að samræma skráningu og söfnun gagna milli kerfa, og nýta betur þau úrræði sem þegar eru til staðar, svo sem samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, áhættumat og nálgunarbann eða brottvísun af heimili.
Aðgerðahópurinn leggur áherslu á að greina þurfi áhrif ofbeldis á börn út frá aldri, kyni og öðrum bakgrunnsbreytum til að tryggja markvissari stuðning og inngrip.
Heildræn nálgun í innleiðingu aðgerða og þjónustu
Fram undan er innleiðing nýrra aðgerða innan heilbrigðiskerfisins, þar sem meðal annars verður komið á skimun og ofbeldismóttöku fyrir börn. Samhliða er unnið að því að innleiða áfallamiðaða og barnvæna nálgun í skólaþjónustu, m.a. með innleiðingu verkefnisins Heillaspora á vegum Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu (MMS) í samstarfi við sveitarfélög.
Þá hefur Barna- og fjölskyldustofa hafið heildræna innleiðingu á verklaginu Merki um öryggi (Signs of Safety), sem er viðurkennt alþjóðlegt verklag í barnavernd. Aðferðin miðar að því að efla öryggi barna og fjölskyldna þeirra og draga þannig úr þörf á íþyngjandi inngripum.
Áfram þarf að stytta biðlista og efla gæði þjónustunnar
Aðgerðahópurinn leggur áherslu á að stytta biðlista eftir úrræðum fyrir börn sem sæta eða beitt hafa ofbeldi og tryggja um leið gæði og árangur þjónustunnar. Mikilvægt er að úrræði séu aðgengileg, þverfagleg og byggi á snemmtækri íhlutun.
Aðgerðir stjórnvalda miða að því að sporna við þróun í átt að auknu ofbeldi, efla forvarnir og leiða saman þjónustu- og viðbragðsaðila í samstilltu átaki gegn vaxandi ofbeldi meðal barna og ungmenna á Íslandi.
Næstu skref og framhald vinnu
Næsta stöðuskýrsla aðgerðahópsins verður lögð fram í desember 2025. Þar verður fjallað ítarlegar um lykilaðgerðir, metinn árangur þeirra og tilgreind næstu skref í innleiðingu aðgerðaáætlunarinnar gegn ofbeldi meðal og gegn börnum.
Nánari upplýsingar um aðgerðir
- Vinnufundur aðgerðahóps: Frá orðum til aðgerða – saman tryggjum við öryggi barna
- Skimun fyrir ofbeldi hjá börnum – skýrsla um ferlið og framtíðarverkefni
- Unnið að verkefnum til að stytta bið barna eftir greiningum og þjónustu
- Vel heppnað samstarf félagsmiðstöðva og lögreglu á Menningarnótt
- Auglýst eftir umsóknum frá sveitarfélögum um styrki í þágu farsældar barna
- Öflugt foreldrastarf í þágu barna
- Staða aðgerða gegn ofbeldi meðal barna – stöðutaka aðgerðahóps (júní 2025)
- Staða aðgerða gegn ofbeldi meðal barna – stöðuskýrsla aðgerðahóps (mars 2025)
- Skimun fyrir ofbeldi í grunnskólum og þjónusta við þolendur
- Flotinn gegn ofbeldi meðal barna
- Efling samfélagslögreglu í aðgerðum gegn ofbeldi meðal barna
- Um starfshópinn