Alþingi samþykkti frumvarp Loga Einarssonar, menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra, um breytingar á Menntasjóði námsmanna. Í ræðu sinni á Alþingi þakkaði Logi þingheimi fyrir snör handtök og góða vinnu um leið og hann boðaði áframhaldandi heildarendurskoðun á Menntasjóðnum, en vinna við hana er þegar hafin í ráðuneytinu.
Meðal þess sem felst í nýsamþykktum lögum eru breytingar á fyrirkomulagi námsstyrkja þannig að námsmaður fái 20% styrk á hverri önn að uppfylltum kröfum um námsframvindu og 10% ljúki hann námi með prófgráðu innan tilskilinna tímamarka.
Styrkurinn hefur til þessa verið 30% og veittur í eitt skipti við námslok, ljúki námsmaður námi innan tilskilinna tímamarka. Með því að skipta styrknum upp er búinn til aukinn sveigjanleiki og má áætla að námsmenn fái a.m.k. einhvern styrk á námstímanum, jafnvel þótt viðkomandi þurfi að hverfa frá námi af félagslegum eða óvæntum ástæðum.
Nýju lögin fela einnig í sér að upphafstími afborgana námslána er lengdur úr 12 mánuðum eftir námslok í 18 mánuði og að heimild til að endurgreiða eitt lán í einu er rýmkuð. Þannig nær heimildin nú bæði til lána með tekjutengdum afborgunum og til lána með jöfnum afborgunum. Þetta er gert í þeim tilgangi að námsmenn lendi ekki í mjög íþyngjandi greiðslubyrði eins og komið hefur fyrir suma lánþega samkvæmt fyrri lögum.
Loks voru gerðar breytingar til að skýra betur vaxtabyrði námslána, sem hvílir á ríkissjóði fram að námslokum, sem og á vaxtaviðmiðum námslána þannig að skýrt sé að námslán skuli bera sömu breytilegu vexti og kjör endurlána ríkisins úr ríkissjóði hverju sinni.
Nánar má fræðast um nýsamþykktu lögin í hlekkjunum hér að neðan.
Menntasjóður námsmanna – Alþingi
Námsmenn fá styrk á hverri önn og afborganir námslána hefjast seinna – Stjórnarráðið

