Loftslags- og orkusjóður hefur úthlutað rúmlega 118 milljónum króna í styrki til orkusparandi verkefna í gróðurhúsum. Styrkirnir renna til 11 ylræktenda og miða að því að draga úr raforkunotkun, bæta orkunýtni og styðja við áframhaldandi tæknivæðingu íslenskra gróðurhúsa.
Verkefnin snúa fyrst og fremst að innleiðingu LED-lýsingar og annars orkusparandi búnaðar, sem getur dregið úr raforkunotkun í gróðurhúsum um 40–60%. Áætlað er að aðgerðirnar skili samtals 9,4 GWst árlegum raforkusparnaði, sem samsvarar raforkunotkun um 2.000 heimila.
Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, gerði breytingu á reglugerð nr. 1566/2024 um Loftslags- og orkusjóð síðasta vor og fól sjóðnum að veita garðyrkjubændum fjárfestingarstuðning í þágu bættrar orkunýtni og orkusparnaðar.
Í ljósi góðs árangurs úthlutunar síðasta árs til orkusparandi aðgerða í gróðurhúsum ákvað ráðherra að framhald yrði á fyrri úthlutun. Samanlagt má áætla að átaksverkefnið Styrkir til orkusparandi aðgerða í gróðurhúsum geti náð fram raforkusparnaði sem nemur 17,8 GWst/ári. Það samsvarar árlegri raforkunotkun 3.900 heimila eða árlegri notkun 5.900 rafbíla.
Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra: „Átakið sem ég setti af stað í fyrra skilaði jafnvel enn meiri árangri en við bjuggumst við. Því lá beinast við að stækka verkefnið og fá fleiri með. Þetta er í fyrsta skipti í áratugi sem stjórnvöld ráðast í skipulegan fjárfestingarstuðning við framleiðendur garðyrkjuafurða – og nú heldur tæknivæðing gróðurhúsa áfram af fullum þunga. Styrkirnir skila sér í lækkandi raforkukostnaði og þannig aukinni framleiðni og samkeppnishæfni ylræktar á Íslandi, sem aftur skilar sér til neytenda og samfélagsins alls.”
Loftslags- og orkusjóður hefur umsjón með úthlutun styrkjanna og nemur hver styrkur hað hámarki 40% af heildarkostnaði hvers verkefnis, eða 15 milljónum króna.
Verkefnin sem hlutu styrk eru:

Markmið styrkjanna er að draga úr orkunotkun í gróðurhúsum og bæta orkunýtni, meðal annars með innleiðingu á LED-ljósum og öðrum orkusparandi búnaði. Aðgerðirnar eiga að skila sér í lægri rekstrarkostnaði fyrir bændur og stuðla að minni orkuþörf samfélagsins í heild.
Með úthlutuninni er lögð áhersla á verkefni sem skila mestum orkusparnaði á hverja styrkkrónu og stuðla að betri rekstrarhagkvæmni í gróðurhúsum, auk þess sem þau nýtist sem fyrirmyndir fyrir aðra í greininni.
Styrkir til orkusparandi aðgerða í gróðurhúsum

