Tilkynning Íslenskrar erfðagreiningar
Breytingar hjá Íslenskri erfðagreiningu
Móðurfélag Íslenskrar erfðagreiningar, Amgen Inc., hefur tekið ákvörðun um áherslubreytingar og endurskipulagningu á rannsóknarsviði Amgen á heimsvísu sem mun hafa áhrif á tiltekin störf, þar á meðal hjá Íslenskri erfðagreiningu. Áherslubreytingarnar miða að því að beina kröftum félagsins enn frekar í verkefni sem hraða vísindalegum framförum og þróun byltingakenndra lyfja í baráttunni við erfiða sjúkdóma.
Þessar breytingar hafa í för með sér að Íslensk erfðagreining þarf að fækka sem nemur 45 störfum í starfstöðvum sínum í Vatnsmýri og var þeim starfsmönnum sem um ræðir tilkynnt um starfslok í dag. Um 150 manns munu starfa áfram hjá félaginu og mun starfsemi þess áfram snúa að mikilvægum erfðafræðilegum rannsóknum, jafnframt því að varðveita og nýta rannsóknargögn félagsins enda hafa rannsóknir sem á þeim byggja lagt mikið af mörkum í að greina erfðafræðilega áhættuþætti algengra sjúkdóma.
Unnur Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri hjá Amgen:
„Íslensk erfðagreining mun áfram gegna lykilhlutverki í rannsóknarstarfsemi Amgen sem kjarnaeining á sviði erfðarannsókna. Í dag er hugur okkar þó fyrst og fremst hjá þeim góðu samstarfsfélögum sem þessar breytingarnar snerta. Við þökkum þeim öllum fyrir mikilvægt og metnaðarfullt starf sem hefur átt þátt í að gera Íslenska erfðagreiningu að leiðandi fyrirtæki í erfðarannsóknum á heimsvísu.
Við munum halda áfram á þeirri vegferð og stunda rannsóknir sem nýtast í þróun lyfja sem bæta lífsgæði sjúklinga og í baráttunni við banvæna sjúkdóma“, segir Unnur Þorsteinsdóttir, meðframkvæmdastjóri Íslenskrar erfðagreiningar.
Íslensk erfðagreining er í eigu Amgen Inc. sem skráð er í NASDAQ kauphöllinni í Bandaríkjunum.

