Trygg­inga­fé­lagið Vörður hef­ur ákveðið að lækka iðgjöld allra trygg­inga ein­stak­linga og heim­ila í maí­mánuði um 33%. Rekja má lækk­un­ina til færri tjóna­til­kynn­inga í mánuðinum sök­um áhrifa og út­breiðslu kór­ónu­veirunn­ar.

Þetta seg­ir Guðmund­ur Jó­hann Jóns­son, for­stjóri Varðar, í Morg­un­blaðinu í dag. Mun lækk­un­in ná til liðlega 55 þúsund viðskipta­vina Varðar, en lögð er áhersla á að hún nái til allra ein­stak­linga í viðskipt­um hjá fyr­ir­tæk­inu.

Að sögn Guðmund­ar hef­ur veru­leg breyt­ing orðið á tjóna­mynstri fólks allt frá því að kór­ónu­veir­an fór fyrst að gera vart við sig hér á landi. „Fólk er mikið til heima hjá sér og það breyt­ir tjóna­mynstr­inu. Við erum al­mennt að sjá færri tjón,“ seg­ir Guðmund­ur í viðtalinu við Mbl.