Í gærkvöldi jókst jarðskjálftavirkni við Grindavík, um sex skjálftar yfir 3,0 að stærð hafa mælst og voru stærstu skjálftarnir 4,3 að stærð kl.22:24 og 4,0 að stærð kl. 22:22 og eru þetta jafnframt stærstu skjálftar sem mælst hafa síðan að virkni hófst 21. janúar. Yfir 500 skjálftar hafa mælst á svæðinu síðasta sólahringinn en engin merki eru um gosóróa. Yfir 100 tilkynningar hafa borist um að skjálftinn hafi fundist á Reykjanesskaga, Höfuðborgarsvæðinu og á Akranesi.
Nýjasta GPS úrvinnslan sýnir áframhaldandi landris á svæðinu vestan við Þorbjörn. Í heildina hefur land risið yfir 4 cm frá 20. janúar sl. Gervitunglamyndir sýna sömu þróun. Líklegasta skýring þessarar virkni er kvikuinnskot á 3-9 km dýpi rétt vestan við Þorbjörn. Líklegast er að virknin ljúki án eldsumbrota.
Lýsing á skjálftavirkni vikunnar
Tæplega 350 jarðskjálftar voru staðsettir með SIL-mælakerfi Veðurstofu Íslands í vikunni, um 50 fleiri en í síðustu viku. Mesta virknin var skammt norður af Grindavík þar sem jarðskjálftahrina hófst 22. janúar. Þar voru einnig stærstu skjálftar vikunnar, allt að 3,7 að stærð. Stærsti skjálftinn fannst á Reykjanesi, Höfuðborgarsvæðinu og norður í Borgarnes. Þann 26. janúar sást á Insar og GPS mælum að þensla væri undir fjallinu Þorbirni, frá 21. janúar og í framhaldinu var litakóði fyrir flug fyrir Svartsengi færður upp í gulan sem er óvissustig.
Suðurland
Rúmlega 10 litlir skjálftar voru staðsettir í Ölfusi og fáeinir á Hengilssvæðinu. Rólegt var á Suðurlandsundirlendinu og enginn skjálfti við Heklu.
Reykjanesskagi
Mesta virkni vikunnar var um 5km norðnorðaustur af Grindavík. Þar hófst skjálftahrina þann 22. janúar með skjálfta 3,7 að stærð kl. 13:51. Skjálftinn fannst vel á Reykjanesi, Höfuðborgarsvæðinu og alveg upp í Borgarnes. Annar skjálfti svipaður að stærð var kl. 15:14. Nokkrir aðrir voru um og yfir þremur stigum, aðrir minni. Hrinan stóð fram eftir kvöldi og höfðu þá mælst rúmlega 100 jarðskjálftar. Virkni hélt áfram á svæðinu út vikuna þó hinni formlegu hrinu væri lokið. Í heildina mældust yfir 160 skjálftar á þessu svæði.
Fjórir skjálftar mældust undir Grindavíkurbæ að kvöldi 21. janúar, frá kl. 19:44 til 19:52. Einn skjálftinn var rúmlega tvö stig aðrir minni. Ekki bárust tilkynningar um að þeir hefðu fundist.
Þann 26. janúar sýndu bæði Insar og GPS mælar við Þorbjörn á Reykjanesi mikla þenslu undir fjallinu (3-4 mm á dag). Í framhaldi af því var litakóði fyrir flug fyrir Svartsengi færður upp í gulan sem er óvissustig.
Á annan tug skjálfta mældust austar á Reykjanesskaganum, allir um og innan við tvö stig. Nokkrir skjálftar voru á Reykjaneshrygg, stærsti 3,3 að stærð.
Norðurland
Um 20 skjálftar mældust á Tjörnesbrotabeltinu, svipað og í síðustu viku. Tæpur helmingur var í Öxarfirði. Stærsti skjálftinn úti fyrir Norðurlandi var 2,4 að stærð, úti fyrir minni Eyjafjarðar.
Á annan tug skjálfta var við Þeistareyki, allir innan við tvö stig, og nokkrir við Kröflu.
Hálendið
Um 40 skjálftar mældust undir Vatnajökli. Þrír skjálftar voru staðsettir í öskju Bárðarbungu og er það svipaður fjöldi og í síðustu viku. Stærsti skjálftinn var 26. janúar kl. 14:25, 2,9 að stærð aðrir mun minni. Rólegt var við Öræfajökul, líkt og síðustu vikur. Þar mældist einn lítill skjálfti. Ríflega tugur smáskjálfta var í berganginum sem liggur að Holuhrauni og fáeinir á Lokahrygg. Svipuð virkni var við Grímsvötn og í fyrri viku, um 10 skjálftar. Stærsti skjálftinn var 1,4 að stærð.
Hátt í 40 jarðskjálftar mældust á svæðinu norður af Vatnajökli, flestir við Herðubreið og Herðubreiðartögl. Virknin er svipuð í fjölda og stærð skjálfta og vikuna á undan.
Mýrdalsjökull
Einungis tveir jarðskjálftar mældust í Kötlu, báðir þann 21. janúar og báðir í sunnanverðri öskjunni. Sá fyrri var kl. 07:55, 2,8 að stærð. Seinni skjálftinn var smáskjálti kl. 15:23. Fáeinir smáskjálftar voru á Torfajökulssvæðinu.