Björn Leví Gunnarsson mælir fyrir frumvarpi um frjálsar handfæraveiðar á Alþingi í kvöld. Þetta er 8. mál á dagskrá, þingfundur hefst kl. 13:30 þannig að frumvarpið gæti verið lagt fram seinnipartinn eða í kvöld. Á þriðjudögum er leyfilegt að hafa þingfundi til miðnættis.
Í greinargerð með frumvarpinu segir m.a. ,,Strandveiðar eru umhverfisvænar og fara vel með hafsbotninn. Þær veita einstaklingum um allt land atvinnutækifæri og styrkja byggðir landsins. Núverandi fyrirkomulag er þó óþarflega íþyngjandi og mismunar landsvæðum. Þetta hamlar vexti greinarinnar og kemur í veg fyrir að strandveiðar dafni sem skyldi.
Það er miður því að strandveiðarnar hafa sannað gildi sitt fyrir atvinnulíf í byggðum landsins sem sjálfbærar, vistvænar veiðar sem glætt hafa byggðir landsins lífi og stuðlað að jákvæðri samfélagsþróun.“
Frumvarp til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006, með síðari breytingum (strandveiðar).
Flm.: Björn Leví Gunnarsson, Andrés Ingi Jónsson, Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, Eva Sjöfn Helgadóttir, Gísli Rafn Ólafsson, Halldóra Mogensen.
1. gr.
Á eftir orðunum „veiða í atvinnuskyni“ í 1. málsl. 5. gr. laganna kemur: og við skráningu fiskiskipa til strandveiða.
2. gr.
6. gr. a laganna orðast svo:
Heimilt er að stunda handfæraveiðar við Ísland samkvæmt skilyrðum þessarar greinar. Í lögum þessum eru slíkar veiðar nefndar strandveiðar. Afli sem fæst við strandveiðar reiknast ekki til aflamarks eða krókaaflamarks þeirra skipa er þær veiðar stunda.
Einungis er heimilt að hefja strandveiðar að undangenginni skráningu fiskiskips hjá Fiskistofu. Fiskistofu er aðeins heimilt að skrá fiskiskip til strandveiða sem fullnægja ákvæðum 5. gr. og einungis er heimilt að skrá á hverja útgerð, eiganda, einstakling eða lögaðila, eitt fiskiskip til strandveiða. Eigandi fiskiskips skal vera lögskráður á skipið. Eftir skráningu til strandveiða er skipum óheimilt að flytja frá sér aflamark þess árs umfram það sem flutt hefur verið til skipsins.
Skráning til strandveiða samkvæmt þessari grein er bundin eftirfarandi skilyrðum:
1. Tilkynna skal Fiskistofu um sjósókn fiskiskipsins í samræmi við reglur sem ráðherra setur með reglugerð.
2. Aldrei er heimilt að hafa fleiri en fjórar handfærarúllur um borð í fiskiskipi. Engin önnur veiðarfæri en handfærarúllur skulu vera um borð.
3. Skylt er að landa öllum afla í lok hverrar veiðiferðar og skal hann veginn og skráður endanlega hér á landi. Um vigtun, skráningu og meðferð afla fer að öðru leyti samkvæmt ákvæðum laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, og ákvæðum gildandi reglugerðar þar um.
Beita skal ákvæðum laga nr. 37/1992, um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla.
3. gr.
24. gr. laganna orðast svo:
Fiskistofa skal veita áminningar og svipta skip leyfi til veiða í atvinnuskyni eða leyfi til öflunar sjávargróðurs, eða eftir atvikum áminna eða banna veiðar skipa sem skráð eru til strandveiða, fyrir brot á lögum þessum eða reglum settum samkvæmt þeim eftir því sem nánar er fyrir mælt í lögum um umgengni um nytjastofna sjávar. Ef veiðitímabili er lokið áður en ákvörðun Fiskistofu um sviptingu veiðileyfis tekur gildi, eða veiðitímabili lýkur áður en gildistíma sviptingar lýkur, skal leyfissvipting samkvæmt ákvörðuninni gilda við útgáfu næsta veiðileyfis, eða eftir atvikum á næsta fiskveiðiári. Ákvörðunum Fiskistofu um áminningar og veiðileyfissviptingar verður skotið til ráðuneytisins, enda sé það gert innan eins mánaðar frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun. Kæra frestar ekki réttaráhrifum ákvörðunar.
4. gr.
Lög þessi öðlast þegar gildi.
Greinargerð.
Mál þetta er endurflutt frá 150. löggjafarþingi (312. mál). Markmið frumvarpsins er að handfæraveiðar við Íslandsstrendur verði gefnar frjálsar til að bæta aðstæður til strandveiða og taka tillit til efnahagslegra sjónarmiða sem og umhverfisþátta. Einnig er litið til fiskveiðistjórnar og öryggismála sjómanna. Eins og í gildandi lögum eru þessar veiðar kallaðar strandveiðar.
Strandveiðar eru umhverfisvænar og fara vel með hafsbotninn. Þær veita einstaklingum um allt land atvinnutækifæri og styrkja byggðir landsins. Núverandi fyrirkomulag er þó óþarflega íþyngjandi og mismunar landsvæðum. Þetta hamlar vexti greinarinnar og kemur í veg fyrir að strandveiðar dafni sem skyldi. Það er miður því að strandveiðarnar hafa sannað gildi sitt fyrir atvinnulíf í byggðum landsins sem sjálfbærar, vistvænar veiðar sem glætt hafa byggðir landsins lífi og stuðlað að jákvæðri samfélagsþróun.
Frá upphafi hefur sérstaklega gætt óánægju með áhrifin af svæðaskiptingu strandveiðanna og því að jafnræðisreglan sé ekki nægilega vel í heiðri höfð við framkvæmd veiðanna. Núverandi útfærsla strandveiðikerfisins og notkun svæða og aflamarks skapar þrýsting á strandveiðimenn til að veiða í öllum veðrum og varað hefur verið við hættunni sem af því hlýst.
Fyrirkomulagi strandveiða hefur verið breytt í gegnum árin í því skyni að koma til móts við þessar óánægjuraddir en að mati flutningsmanns hefur markmiðum um öruggar veiðar og jafnræði ekki enn verið náð.
Með frjálsum strandveiðum er íþyngjandi regluverki aflétt af greininni, jafnræði allra er tryggt, þrýstingi til þess að fara til veiða í vályndum veðrum aflétt og lagður grundvöllur að blómlegum smáútgerðum til frambúðar.
Í 6. gr. a gildandi laga eru lagðar miklar takmarkanir á fiskiskip og útgerðir þegar kemur að veiðum. Í fyrsta lagi þarf leyfi frá Fiskistofu til að stunda strandveiðar og aðeins innan þess aflamagns sem ráðherra ákveður. Miðunum er svo skipt upp í fjögur landsvæði sem deila með sér aflamagninu og getur Fiskistofa stöðvað veiðar þegar því aflamarki er náð. Skipin, og löndun úr þeim, eru þar að auki bundin við eitt landsvæði á hverju fiskveiðiári og er skráning skipa bundin við það landsvæði þar sem heimilisfesti útgerðar er.
Strandveiðar eru samkvæmt gildandi lögum bannaðar á föstudögum, laugardögum og sunnudögum. Hver veiðiferð má ekki standa lengur en í 14 klukkustundir, tilkynna þarf um sjósókn og aðeins má hafa fjórar handfærarúllur um borð. Jafnframt er hver veiðiferð skips bundin við 650 kg af kvótabundnum tegundum.
Ákvæðum frumvarps þessa er ætlað að einfalda þessar reglur verulega, án þess að slíkt hafi áhrif á öryggi sjómanna eða neikvæð áhrif á nytjastofna. Í fyrsta lagi eru strandveiðar gefnar frjálsar að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Regluverkið er einfaldað og fallið frá skiptingu landsvæða. Takmörkun við fjórar handfærarúllur á hvert skip mun takmarka stærð skipa og aflamagn á hverju fiskveiðiári.
Fallið er frá takmörkunum á aflamagni sem og hvenær árs veiðar mega fara fram. Í ljósi þess að heildarafli strandveiða hefur frá árinu 2009 að jafnaði verið 2–4% af heildarafla alls íslenska flotans innan hvers fiskveiðiárs er ekki talið að frjálsar strandveiðar hafi teljandi áhrif á stofnstærð fisktegunda við strendur Íslands.
Um einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.
Samkvæmt 1. gr. frumvarps þessa er því bætt við 5. gr. laganna að skilyrði til útgáfu veiðileyfis eigi einnig við um skráningu skipa til strandveiða.
Um 2. gr.
6. gr. a laganna er umorðuð á þann veg að strandveiðar við Ísland séu gefnar frjálsar með vissum takmörkunum. Tekið er fram sérstaklega, líkt og í gildandi útgáfu greinarinnar, að slíkar veiðar reiknist ekki til aflamarks eða krókaaflamarks. Skrá þurfi þau skip sem ætlað er að taka þátt í strandveiðum og þurfa þau skip að uppfylla 5. gr. laganna um haffærisskírteini, skráningu hjá Samgöngustofu og fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri í lögum um veiðar og vinnslu erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands.
Takmarkanir á strandveiðum verða mun minni en í gildandi lögum. Tilkynningarskylda til Fiskistofu helst óbreytt og aðeins verða fjórar handfærarúllur leyfðar um borð í hverju skipi. Ákvæði um hámarksafla í hverri veiðiferð og lengd veiðiferða eru felld úr gildi, sem og ákvæði þess efnis að strandveiðar séu aðeins heimilar frá 1. maí til 31. ágúst. Helst það ákvæði í hendur við að takmarka ekki heildarafla yfir árið. Sjómenn munu, ef frumvarpið verður samþykkt, ekki þurfa að keppast við að ná í sinn hlut í öllum veðrum. Er talið að aflétting þessara takmarkana muni draga úr hvatanum til að sigla út í tvísýnum veðrum og auka þannig öryggi sjómanna.
Um 3. gr.
24. gr. laganna fjallar um heimildir Fiskistofu til að áminna og svipta skip leyfi til veiða í atvinnuskyni. Í 3. gr. frumvarpsins er 1. málsl. greinarinnar breytt og Fiskistofu heimilað að banna veiðar tiltekinna skipa til strandveiða. Er þar aðeins um að ræða breytingar á orðalagi því að ekki er lengur gert ráð fyrir leyfum til strandveiða og því ekki hægt að svipta þau skip leyfi. Getur bann sem Fiskistofa setur á skip lengst staðið fram að upphafi næsta fiskveiðiárs og er það í samræmi við ákvæði um leyfissviptingu.
https://www.althingi.is/altext/152/s/0355.html