Ein besta, ef ekki sú allra besta grínmynd sem framleidd hefur verið á Íslandi
Fullt hús, ný gamanmynd Sigurjóns Kjartanssonar með Hilmi Snæ Guðnasyni í hlutverki sellóleikara sem flytur heim til Íslands og gengur til liðs við íslenskan kammerhóp, fór rakleiðis á topp íslenska bíóaðsóknarlistans um nýliðna helgi. Hátt í 2.200 manns sáu myndina en hún var frumsýnd s.l. föstudag.
Fullt hús í leikstjórn Sigurjóns Kjartanssonar er stórskemmtileg gamanmynd um kammerhljómsveit í fjárhagskröggum. Staðan er svo slæm að hljómsveitin er tilbúin að fremja hvaða svívirðilega glæp sem er til að halda góða tónleika.
Kvikmyndin Fullt hús er snilldarvel gerð og ein besta, ef ekki sú allra besta grínmynd sem framleidd hefur verið á Íslandi.
Myndin fær fimm stjörnur af jafn mörgum mögulegum
Bæði söguþráðurinn sem er ansi kómískur og fyndinn sem og leikararnir fá fullt hús stiga hjá Fréttatímanum. Myndin fær fimm stjörnur af jafn mörgum mögulegum. Húmorinn í myndinn er stórbrotinn og hvert snilldar atriðið á fætur öðru er eins og að borða upp úr konfektkassa þar sem allir molarnir eru himneskir.
Kammersveit í kröggum er að fara á hausinn og er að missa styrk frá borginni til að halda áfram. Þá er gripið til örþrifaráða til að halda góða tónleika. Heimsfrægur sellóleikari er ráðinn til að spila með þeim en hans innri maður er ekki eins glansandi fínn og hans opinbera persóna. Sellóleikarinn spillir sveitinni allri og dregur þau enn neðar í svaðið. Boðskapur myndarinnar endurspeglar mannlega bresti.
Hlaðborð gamanleikara í Fullu húsi
Einvala lið leikara fer með aðalhlutverkin í myndinni: Hilmir Snær Guðnason, Helga Braga Jónsdóttir, Ilmur Kristjánsdóttir, Halldór Gylfason, Guðjón Davíð Karlsson, Vivian Ólafsdóttir, Hannes Óli Ágústsson, Jón Gnarr, Eggert Þorleifsson, Katla Margrét Þorgeirsdóttir, Pétur Magnússon, Unnur Ösp Stefánsdóttir, Sverrir Þór Sverrisson og Edda Björg Eyjólfsdóttir. Ásamt fjölda leikara af ýmsum stærðum og gerðum.
Þetta er fyrsta mynd Sigurjóns í fullri lengd en hann er þekktur fyrir verk á borð við Fóstbræður og Ófærð ásamt því að vera annar Tvíhöfðanna og forsprakki rokkhljómsveitarinnar HAM.