Traust þjóðarinnar til borgarstjórnar Reykjavíkur hefur hrapað, en hlutfall þeirra sem bera traust til hennar lækkar um 8 prósentustig, eða úr 24% í tæplega 16%. Bankakerfið hefur frá hruni verið í neðsta sæti af þeim stofnunum sem eru mældar en er nú í þriðja neðsta sætinu á eftir borgarstjórn og Alþingi skv. mælingu GALLUP.
Traust til Alþingis og borgarstjórnar minnkar mjög mikið á meðan traust til dómskerfisins, lögreglunnar og ríkissaksóknara eykst. Almenningur var spurður um traust sitt til ýmissa stofnana samfélagsins og eru nokkrar breytingar á niðurstöðum frá því í fyrra. Traust til Alþingis mælist mun lægra en í fyrra og það sama má segja um traust til borgarstjórnar Reykjavíkur.
Traust til dómskerfisins mælist aftur á móti mun hærra en í fyrra, og traust tillögreglunnar og ríkissaksóknara mælist einnig marktækt hærra. Sú stofnun sem flestir bera mikið traust til er eins og hingað til Landhelgisgæslan en rétt rúmlega 89% þeirra sem taka afstöðu bera mikið traust til hennar, sem er svipað hlutfall og síðustu ár.
Embætti forseta Íslands mælist í öðru sæti annað árið í röð, en rúmlega 83% bera mikið traust til þess, og hefur hlutfallið haldist svipað síðan Guðni Th. tók við forsetaembætti. Nær 83% bera mikið traust til lögreglunnar sem er aðeins hærra hlutfall en í fyrra.
Rúmlega 74% bera mikið traust til Háskóla Íslands, nær 69% til heilbrigðiskerfisins og 55% til umboðsmanns Alþingis, en það eru svipuð hlutföll og í fyrra. Ríflega 51% ber mikið traust til ríkissaksóknara og er það aðeins hærra hlutfall en í fyrra. Nær 48% bera mikið traust til ríkissáttasemjara sem er svipað og undanfarin ár. Nær 47% bera mikið traust til dómskerfisins en það er hækkun um 11 prósentustig frá því í fyrra, og mesta traust sem hefur mælst til þess þau 14 ár sem það hefur verið mælt. Rúmlega 31% ber mikið traust til Seðlabankans, þrír af hverjum tíu til þjóðkirkjunnar, rúmlega 27% til Fjármálaeftirlitsins og um fimmtungur til bankakerfisins, en það eru svipuð hlutföll og í fyrra. Eins og áður segir minnkar traust til Alþingis mikið. Það mælist rúmlega 18% en í fyrra báru um þrír af hverjum tíu mikið traust til þess.
Traust til borgarstjórnar Reykjavíkur minnkar einnig mikið en hlutfall þeirra sem bera mikið traust til hennar lækkar um 8 prósentustig, eða úr 24% í tæplega 16%. Bankakerfið hefur frá hruni verið í neðsta sæti af þeim stofnunum sem eru mældar en er nú í þriðja neðsta sætinu á eftir borgarstjórn og Alþingi.
Þjóðarpúls Gallup Mars 2019 Spurt var: Hversu mikið eða lítið traust berð þú til …? – Stofnanir og embætti birtust í tilviljunarkenndri röð.
Niðurstöður sem hér birtast eru úr netkönnun sem gerð var dagana 7. til 20. febrúar 2019. Heildarúrtaksstærð var 1.424 og þátttökuhlutfall var 54,3%. Einstaklingar voru
handahófsvaldir úr Viðhorfahópi Gallup.