Við þurfum kerfisbreytingar í átt að meiri sanngirni og réttlæti
Félagsmenn í aðildarfélögum ASÍ eru tæplega 133.000 talsins eða um 65% vinnumarkaðarins. Fjöldi kjarasamninga eru í gildi innan félaga ASÍ, við einstaka atvinnurekendur, starfsgreinar, samtök atvinnurekenda auk ríkis og sveitarfélaga. Öll félög sem eru með lausa kjarasamninga hafa vísað deilum sínum til ríkissáttasemjara og fer hún því með verkstjórn allra viðræðna sem eru í gangi. Aðildarfélögin eru þó í ólíkum takti og ekkert óeðlilegt við það í jafn stórum samtökum og ASÍ. Hvernig til tekst næstu daga og vikur ræðst af því hversu sveigjanlegir viðsemjendurnir eru en öllum er ljóst að staðan verður alvarlegri með hverjum deginum.
Hingað til hefur skort á skilning á þeirri grunvallarkröfu verkalýðshreyfingarinnar að gera kerfisbreytingar í átt að meiri sanngirni og réttlæti. Þegar forstjóri Haga er með 22 föld laun lægst launaða starfskraftsins innan sama fyrirtækis þarf enginn að vera hissa á ástandinu á vinnumarkaði. Meira að segja fjármálaráherra virðist vera farinn að gera sér grein fyrir þessu samanber bréf til Bankasýslu ríkissins í gær þar sem hann fer fram á endurskoðun launa bankastjóra Landsbankans.
Fjármálaráðherra hefur reyndar ekki svarað því hvað hann telji eðlileg laun bankastjóra í samhengi við til dæmis laun gjaldkera. Frekar er sett út á tímasetningu launaákvarðana. Persónulega finnst mér ágætt að fá þessar hækkanir í miðri kjaradeilu í stað þess að fá þær viku eftir undirritun kjarasamninga. En vonandi veit það á gott að stjórnvöld geri athugasemdir við óeðlilegar og forhertar hækkanir efstu stétta.
Eðli málsins samkvæmt eiga kjaramálin mestan tíma minn um þessar mundir. Þar fyrir utan hófst stefnumótun fyrir leigufélagið Blævi í vikunni, en stefnt er að því að koma félaginu í gang til að mæta vaxandi þörf fyrir óhagnaðardrifin leigufélög fyrir fólk með meðaltekjur. Deginum í dag er svo varið á Selfossi í góðum félagsskap kvenna í verkalýðshreyfingunni á Suðurlandi. Þar förum við yfir það hvernig rétta megi kynjahlutföllin í hreyfingunni undir yfirskriftinni Konur taka af skarið.