Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, tilkynnti í dag hver hljóta styrk úr þróunarsjóði innflytjendamála. Alls fengu 19 verkefni og rannsóknir samtals ríflega 40 milljónir króna. Sérstaklega var horft til verkefna með eftirfarandi áherslum:
- Verkefna sem stuðla að virkri notkun íslensku í gegnum félagslega viðburði og sem styðja við hefðbundið íslenskunám.
- Verkefna þar sem lögð er áhersla á virkni ungs fólks, annars vegar þess sem er nýlega komið til landsins og hins vegar þess sem hvorki er í vinnu né skóla.
- Verkefna sem stuðla að inngildingu,* einkum verkefna sem stuðla að jafnri þátttöku innflytjenda og innlendra á jafningjagrunni.
* Inngilding felur í sér að viðurkenna og virða fjölbreytileikann og gera alltaf ráð fyrir honum í öllu starfi. Inngilding snýr að því að virkja allt fólk til þátttöku og gefa fjölbreyttum hópi fólks kleift að taka þátt í ákvarðanatöku.
Félags- og hagsmunasamtök innflytjenda voru sérstaklega hvött til þess að sækja um, auk þess sem haldinn var fjölmennur kynningarfundur um umsóknarferlið og fór hann fram á íslensku, ensku, pólsku og spænsku. Í fyrsta sinn voru umsóknareyðublöð og leiðbeiningar auk þess höfð bæði á íslensku og ensku.
Sjá lista hér neðst í fréttinni yfir verkefni og rannsóknir sem hlutu styrki.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra:
„Framlög til þróunarsjóðs innflytjendamála hafa verið stóraukin, enda málaflokkurinn mikilvægari en aldrei fyrr. Ljóst er að mikil gróska er í þróunarverkefnum og rannsóknum sem tengjast flóttafólki og innflytjendum á Íslandi. Nú er einmitt áríðandi að rannsaka áhrif mismunandi aðgerða og verkefna og læra af þeim. Ég óska öllum styrkþegum velfarnaðar og hlakka til að fylgjast með framhaldinu.“
Paola Cardenas, formaður innflytjendaráðs:
„Mjög ánægjulegt var að sjá fjölda umsókna í ár. Mikilvægasta áherslan okkar að þessu sinni var inngilding og við vorum ánægð að sjá mörg verkefni sem stuðla að henni. Einn mikilvægur þáttur í aðlögun innflytjenda er þátttaka þeirra á öllum sviðum samfélagsins og í ár bárust umsóknir frá innflytjendasamtökum og einstaklingum af erlendum uppruna. Það er jákvæð þróun og við vonumst til að sjá fleiri slíkar umsóknir í framtíðinni. Besta vísbendingin um fjölmenningarsamfélag er þegar innflytjendur og innlendir taka saman þátt í að skapa fjölbreytt samfélag á jafningjagrunni.“
Fayrouz Nouh hlaut hæsta styrkinn í ár fyrir rannsókn þar sem hún skoðar þá þætti sem ýmist styrkja eða veikja þátttöku múslimskra kvenna á vinnumarkaði hér á landi.
Eftirtalin verkefni hlutu styrk úr sjóðnum að þessu sinni:
Nafn verkefnis | Umsækjandi | Upphæð |
Tengja Workshop | Tengja fjölmenningarsamtök | 2.000.000 |
Immigrant integration, creating equal opportunities by teaching Icelandic and harmonious connection in dance and providing integrative social events | Hjálpræðisherinn | 1.500.000 |
The inclusion of Muslim immigrant women to the Icelandic labour market: tailwinds and hindrances | Fayrouz Nouh | 5.500.000 |
Spjöllum með hreim | Borgarbókasafn Reykjavíkur | 1.500.000 |
Orðalykill | Musilla ehf. | 1.800.000 |
Samfélagið okkar – við erum menningin | Kötlusetur | 1.100.000 |
Víslenska: Íslenskunámskeið fyrir vísindamenn | Háskólasetur Vestfjarða | 1.500.000 |
Íslenskuvænt samfélag: við erum öll almannakennarar | Háskólasetur Vestfjarða | 2.300.000 |
Íslenskuklúbbur/B.Eyja | Amtsbókasafnið á Akureyri | 146.000 |
Stuðningur við fylgdarlaus ungmenni | Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum | 4.300.000 |
Skapandi lestur | Tungumálaskólinn | 2.300.000 |
Nám fyrir óskólagengna erlenda nemendur | Verkmenntaskólinn á Akureyri | 4.500.000 |
Eflum tengsl heimila og leikskóla | Sveitarfélagið Árborg | 1.300.000 |
Félagsstarf og inngilding | Menntaskólinn á Ísafirði | 2.000.000 |
Examining race, racism and Whiteness in Icelandic educational materials | Elizabeth Bik Yee Lay | 1.400.000 |
Hennar rödd: Ráðstefna um konur af erlendum uppruna í listum | Elínborg Kolbeinsdóttir | 700.000 |
Assessing the talent pool of foreign experts living in Iceland | Kathryn Elizabeth Gunnarsson | 2.000.000 |
Langtímarannsókn á starfsaðstæðum innflytjenda á íslenskum vinnumarkaði | Varðan – rannsóknarstofnun vinnumarkaðsins | 4.000.000 |
Lesið fyrir hund | Vigdís – Vinir gæludýra á Íslandi | 472.000 |
Samtals | 40.318.000 |
Paola Cardenas, formaður innflytjendaráðs, ásamt Guðmundi Inga Guðbrandssyni, félags- og vinnumarkaðsráðherra.
Gleði á athöfninni.