Ráðstefna um framtíðarskipan vinnumála og breytingar á vinnumarkaði (Future of Work) verður haldin í Hörpu dagana 4. og 5. apríl. Ráðstefnan, sem fer fram á ensku, er haldin í samvinnu við Norrænu ráðherranefndina og stofnunina (International Labour Organization – ILO) í tilefni af því að öld er liðin frá því að Alþjóðavinnumálastofnunin tók til stafa.
Ráðstefnan er sú síðasta af fjórum sem haldnar hafa verið árlega síðan 2016 í aðildarríkjum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar í tilefni aldarafmælisins. Þar verða kynntar niðurstöður nefndar á vegum stofnunarinnar sem í eiga sæti þjóðarleiðtogar og sérfræðingar á sviði félags- og vinnumála. Þær byggja á niðurstöðum úr skýrslum frá fyrri afmælisráðstefnum. Kynnt verður áfangaskýrsla úr rannsókn Norrænu ráðherranefndarinnar um framtíð vinnumála og breytingar á vinnumarkaði sem unnin er af rannsóknarstofnuninni Fafo í Noregi. Þá verður lögð sérstök áhersla á umræður um stöðu kynjanna á vinnumarkaði. Guy Ryder, forstjóri Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, flytur erindi og hefur nokkrum alþjóðasamtökum verið boðið að senda fulltrúa til að taka þátt, m.a. Evrópusambandinu, OECD o.fl.
Í ár verður aldarafmælis Alþjóðavinnumálastofnunarinnar minnst með margvíslegum hætti en hún hóf starfsemi í framhaldi af friðarsamningunum sem bundu enda á fyrri heimsstyrjöldina árið 1919. Í tilefni afmælisins hleypti stofnunin auk þess af stokkunum verkefnum sem beindust að eftirfarandi þáttum:
- þróun atvinnulífs og samfélags
- atvinnusköpun – einnig í þágu þeirra sem standa höllum fæti á vinnumarkaði
- breytingum á skipulagi vinnumála vegna nýrrar tækni
- samskiptum atvinnurekenda og launafólks, réttindum og skyldum, formi á reglusetningu o.fl. á sviði félags- og vinnumála.
Því var beint til ríkisstjórna aðildarríkjanna að efna til umræðna um framangreinda þætti sem gætu orðið innlegg í stefnumótun fyrir starfsemi Alþjóðavinnumálastofnunarinnar í nánustu framtíð. Ríkisstjórnir Norðurlandanna í samvinnu við Skrifstofu norrænu ráðherranefndarinnar, Alþjóðavinnumálastofnunina og samtök aðila vinnumarkaðarins stofnuðu til samstarfsverkefnis af þessu tilefni. Haustið 2017 hófst rannsóknarverkefni sem beinist að breytingum á skipulagi vinnumála og áhrifum þess á norræna vinnumarkaðsmódelið. Enn fremur er sjónum beint að því með hvaða hætti hægt er að hafa áhrif á framvinduna þannig að sá samfélagslegi árangur sem Norðurlöndin hafa náð á sviði félags- og vinnumála glatist ekki.
Frá árinu 2016 hafa eins og að framan greinir verið haldnar árlegar ráðstefnur um framtíð vinnumála sem fylgt hafa formennsku í norrænu ráðherranefndinni. Þar hafa verið tekin fyrir afmörkuð verkefni á framangreindum málefnasviðum. Fyrsta ráðstefnan var haldin í Finnlandi árið 2016, önnur í Noregi árið 2017 og sú þriðja í Svíþjóð vorið 2018. Lokaráðstefnan verður í Hörpu.
Nánari uplýsingar er að finna á heimasíðu ráðstefnunnar ilo2019.is en þar verður líka hægt að nálgast beint streymi.