Þegar mest þörf er á almannavörnum og fólk er í lífshættu á Íslandi er yfirleitt fyrst af öllu kallað á lögreglu og eftir atvikum á björgunarsveitir. Öllum landsmönnum er ljóst að án þessara viðbragðsaðila eru engar bjargir. Löngu síðar eru það ráðherrar og önnur fyrirmenni sem heimsækja rústirnar og raunirnar í þyrlum eða á hestvögnunum eins og tíðkaðist hér fyrr á öldum. Komast þá oft færri slíkir að en vildu enda ljósmyndari með í för.
Til að stýra áhættu hefur hið opinbera komið á lögum og reglum og krefst aðbúnaðar en einnig þess að einstaklingar taki ábyrgð á eigin lífi. Hverjum á svo að bjarga þegar um 350 þúsund manna þjóð verður fyrir áfalli? Hver á forgangsröðunin að vera? Er það þá sem tengslanetið á að ráða för?
Í hruni fjármálakerfisins flokkaði fjármálastofnun fyrirtæki í flokka er kölluðust Pegasus og Pony. Óhætt er að segja að í Pegasus flokkinn flugu þau fyrirtæki og þeir einstaklingar sem höfðu mesta fjármagnið og þar af leiðandi bestu tengingar við hið opinbera. Þeir sem féllu í Pony hópinn voru einmitt þeir sem höfðu ekki fallið í kramið, fyrirtæki sem voru mörg hver lífvænleg en tengslanet eiganda lítið og gisið. Að auki urðu heimilin í landinu fyrir svipaðri meðhöndlun þ.m.t. bændur og búalið. Pony flokkinn hirtu svo bankar og lögfræðingar með alveg galna gjaldþrotalöggjöf í farteskinu.
Nú, í skelfilegum pestafaraldri þar sem vírusinn COVID-19 hefur tekið völdin, hefur ríkisstjórn Vinstri grænna, Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks sett fram aðgerðaráætlun. Er hún kölluð ,,1. áfangi stjórnvalda”. Ætlunin er sjálfsagt að geta svarað gagnrýni með því að ætla sér í ,,glænýjar aðgerðir” ef hinar verða gagnrýndar eða ,,aðrar úrlausnir” uppgötvaðar sem ekki hafi verið gert ráð fyrir í 1. áfanganum. Þetta er klók aðferðarfræði. Hefur forsætisráðherra nú nýlega brugðist við gagnrýni á ,,Ríkisbrúarlánin” til fyrirtækja sem í fyrstu virtust aðeins í boði fyrir Pegasus rétt eins og svo fjölmargt í miðju hruni fjármálakerfisins. Dagar ,,gullnu fallhlífanna” eru væntanlega runnir upp fyrir þá sem hvorki kunna né geta setið berbakt í mikilli hæð.
Þekkt er að Pegasus hefur allt frá hruni greitt hluthöfum sínum milljarða í arð enda ekkert sjálfsagðara þegar vel gengur. En hvað með samspil áhættu og ávöxtunar á frjálsum og opnum markaði? Það er ávallt fagnaðarefni þegar þingheimur og ráðherrar taka sönsum og skiptir litlu hvernær það gerist, þ.e. ef það bara gerist. Eftir stendur hvort Pegasus fái einnig að taka þátt í hlutaskiptaleiðinni þar sem ríkið greiði allt að 50% launa starfsmanna þess fljúgandi fáks. Eru engin áform um að þeir sem ríða Pegasus skili a.m.k. einu hálmstrái af arðgreiðslum síðustu ára til baka? Sleipnir yrði nú aldeilis ánægður með það.
Miðflokkurinn treystir bæði sóknarprestum og sóttvarnarlæknum en flokksmenn verða að láta í sér heyra ef björgunaraðgerðir eru ófullnægjandi í fordæmalausu efnahagsástandi. Það nægir ekki heimilum að fá að taka eigið sparifé út til að auka eigin einkaneyslu ef aðrir fá þetta beint frá ríkinu í margvíslegu formi. Sparifé er langtímatrygging heimila enda þarf fólk einnig að lifa af í ellinni. Til þess er séreignalífeyrir eins og annar lífeyrir. Er ekkert annað í boði?
Mikilvægt er að tryggingagjaldið verði fellt niður um hríð og fasteignagjöld lækkuð. Álagningarhlutfall fasteignagjalda sveitarfélaga verða að lækka ef ekki kemur til lækkunar skattstofnsins. Þessar aðgerðir geta átt við tímabundið eða allt til áramóta. Pony verður því einnig að fá hjálp. Fjölskyldufyrirtækin, minni einingar eins og frumkvöðlaverkefni og svo vissulega heimilin sjálf þurfa aðstoð sem og einyrkjar. Jöfnum því aðstöðuna á milli Pegasus og Pony, höldum okkur á jörðinni og föllum ekki í sömu gryfju og í miðju hruni 2008 til 2011 þegar ríkið beinlínis gekk gegn almenningi með fölskum forsendum þar sem ,,skjaldborgin” var engin og lán ruku upp og átu upp eigið fé venjulegs fólks. Einnig má ekki gleyma þeim sem hafa úr litlu eða engu að spila. Hvað með aldraða, öryrkja, fatlaða og fátæka?
Í framkvæmdum á vegum hins opinbera verður að horfa til þeirra framkvæmda sem skapa tækifæri þar sem tjónið reynist mest. Þarna verður að forgangsráða óháð hagsmunum einstakra flokka og ráðherra sem munu reyna að finna sinn Pegasus til að fleygja sér fjárhagslega yfir næstu kosningar. Það að byggja upp hjúkrunarheimili ætti að vera í forgangi ásamt innviðum eins og vegagerð og öðrum samgöngumannvirkjum þar sem þessa er mest þörf. Styðjum sveitarfélög í að fá framkvæmdir í gang, ekki tefja, ekki draga fæturna og ekki þvæla hlutina í gengdarlausu pappírsfargani, óþarfa fjarfundum og þrætum milli ríkis og sveitarfélaga. Slíkt dregur máttinn úr öllum í miðri sóttinni þar sem súrefni er aldrei mikilvægara bæði fólki og fyrirtækjum. Báknið burt!
Forystumenn verða að líta til framtíðar og verða spyrja sig hvað er það sem mestu skiptir fyrir íslenska þjóð í neyð? Er það ekki einmitt íslensk heilbrigðiskerfi, íslensk framleiðsla, íslenskur landbúnaður og frumkvöðlar sem hér búa og starfa? Við vitum hvaðan íslensk vara kemur, við vitum að hún er hér við bæjardyrnar þegar á reynir. Ekki skal skuldsetja þessar greinar innanlands með skammtímasniðnu samkeppnisviðhorfi Viðreisnar og annarra sósíaldemókrata, viðhorfi sem kæfir og hverfur svo í miðjum faraldri og veitir engar eða litlar bjargir þegar á reynir. Hlúum að hvort öðru.
Aðgerðaráætlun með óskýru innihaldi og án raunverulegs björgunarpakka er lítils virði.
Stöndum saman og látum hvern dag nægja sína þjáningu og sýnum æðruleysi.
Sveinn Óskar Sigurðsson
Bæjarfulltrúi Miðflokksins í Mosfellsbæ og 1. varaforseti bæjarstjórnar.