Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti einróma í dag aðgerðaáætlun til þess að bregðast við afleiðingum COVID-19 faraldursins. Áætlunin er í 11 liðum þar sem heilsa og velferð íbúa og starfsfólks Hafnarfjarðarbæjar er sett í forgang, samhliða því sem brugðist er við efnahagslegum áhrifum faraldursins á íbúa, félög og fyrirtæki, auk sveitarfélagsins sjálfs.
Samkvæmt áætluninni verður létt á mánaðarlegri greiðslubyrði íbúa og fyrirtækja með fjölgun gjalddaga fasteignaskatta og -gjalda, þ.m.t. lóðarleigu, holræsagjalds og vatnsgjalds. Þá geta fyrirtæki sem orðið hafa fyrir meira en 25% tekjutapi vegna faraldursins sótt um frestun allt að þriggja gjalddaga fasteignaskatta og -gjalda fram á næsta ár.
Gjöld leikskóla, grunnskóla og frístundaheimila verða leiðrétt í hlutfalli við þá skerðingu á þjónustu sem rekja má til faraldursins. Sama á við um árskort á sundstaði og í bókasafn Hafnarfjarðar sem framlengd verða sem nemur skertum afgreiðslutímum.
Áhersla verður lögð á að hraða skipulagsvinnu á uppbyggingarsvæðum og að auka viðhaldsframkvæmdir og uppbyggingu innviða. Reynt verður að finna leiðir til þess að hagræða enn frekar í rekstri bæjarins, kannaðir verði möguleikar á sölu eigna og gætt að lausafjárstöðu bæjarfélagsins með nýrri fjármögnun.
Komið verður til móts við íþrótta- og tómstundafélög í bænum með það að markmiði að verja rekstur þeirra og starfsemi. Leitað verður leiða til þess að standa vörð um menningar- og listalíf bæjarins og að efla skapandi greinar. Þá verður leitað verkefna sem hentað gætu hafnfirsku námsfólki og frumkvöðlum til vinnslu í tímabundnum störfum eða verktöku.
„Mikill einhugur er í bæjarstjórn um að bregðast við afleiðingum faraldursins með skjótum og markvissum aðgerðum. Á tímum sem þessum ríður á að standa saman og bæjarfulltrúar Hafnarfjarðar hafa ekki vikið sér frá þeirri ábyrgð,“ segir Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri. „Aðgerðirnar miða að því að lágmarka áhrif þeirrar niðursveiflu sem óhjákvæmileg er og standa um leið vörð um þjónustu bæjarfélagsins. Við leggjum áherslu á að hér er um fyrstu aðgerðir Hafnarfjarðarbæjar að ræða og munum við grípa til frekari aðgerða eftir þörfum.“