Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar hefur farið í tvö sjúkraflug til Vestfjarða í vikunni. Í fyrradag var áhöfnin á TF-EIR, þyrlu Landhelgisgæslunnar, kölluð út vegna veikinda á Ísafirði. Vegna slæms veðurs var ekki hægt að senda sjúkraflugvél og ekki reyndist unnt að lenda þyrlunni á flugvellinum í bænum. Því var gripið til þess ráðs að lenda TF-EIR á þjóðveginum við Arnarnes. Þangað kom sjúkrabíll frá Slökkviliði Ísafjarðar með sjúklinginn sem var fluttur til Reykjavíkur með þyrlunni.
Í gær fór þyrlusveitin aftur í sjúkraflug, nú til Patreksfjarðar. Þrátt fyrir að ekki hafi verið grunur um COVID-19 smit í útköllunum tveimur er ýtrustu varúðarráðstafana gætt og leiðbeiningum um sóttvarnir fylgt eins og myndin með fréttinni sýnir.
Þyrlusveitin hefur sinnt fjórum útköllum á jafnmörgum dögum. Tvö útköll voru vegna vélsleðaslysa um helgina og í þessari viku hefur sveitin tvívegis sinnt sjúkraflugi eins og áður segir.
Þyrlulæknir undirbýr sig fyrir sjúkraflutning. Þrátt fyrir að ekki hafi verið grunur um COVID-19 smit er ýtrustu varúðarráðstafana gætt og leiðbeiningum um sóttvarnir fylgt í flugi sem þessu. TF-EIR, þyrla Landhelgisgæslunnar sést í baksýn á Patreksfirði.
Þyrla Landhelgisgæslunnar og sjúkrabíll frá Slökkviliði Ísafjarðar á þjóðveginum við Arnarnes. Mynd: Slökkvilið Ísafjarðar.