Sólveig Anna vann yfirburða sigur í formannskjöri í stéttarfélaginu Eflingu í byrjun mars og tók hún við embætti í þessu næst stærsta stéttarfélagi landsins í lok apríl
Í dag 1. maí hélt Sólveig Anna ræðu á netinu, þannig að allir landsmenn gætu hlýtt á hana. Sólveig nefndi sem dæmi laun forstjóra Eimskipa og verkamanns. „Það tekur forstjóra Eimskipa fimm klukkustundir að vinna sér inn mánaðarlaun þess sem erfiðar á lágmarks mánaðarlaunum.“
Hún fór yfir víðan völl líkt og Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, sem sagði m.a. að bilið milli fátækra og ríkra aldrei hafa verið meira en nú og það tíu árum eftir hrun og að enn væri verið að bera fólk út af heimilum sínum. Verkalýðsfélögin hafa lýst yfir stríði við stjórnvöld ef að þau taka ekki á kjaramálum, vaxtaokri, verðtryggingu og að sett séu lög á leigufélög vegna okurleigu ofl.
Auk þess sem að hann eins og aðrir forystumenn lýstu því yfir að jafna þyrfti kjörin ekki seinna en strax og með því þá að hækka hjá þeim sem að lægri launin hafa. Verkalýðsfélög um allt land hafa bundist samtökum um að efna til stríðs þegar um áramót, ef að stjórnvöld fara ekki að vinna í málinu strax og láta verkin tala. Að lokum spurði hann fundargesti hvort það væri góðæri að ná ekki endum saman og eiga ekki fyrir húsnæði sínu
Ræða Sólveigar Jónsdóttur er svo birt hér að neðan í heild sinni en í henni rifjar hún upp bankahrunið og segir sömu orðræðu vera ríkjandi þá og nú og að sama óréttlætið sé ennþá
1. maí ávarp Fulltrúaráðs verkalýðsfélaganna í Reykjavík
Er ekki nóg komið?
Fyrir tæpum tíu árum hékk fjárhagur landsins á bláþræði og við Íslendingar vorum í nokkur ár í fjötrum gjaldeyris- og innflutningshafta. Við tók fjöldaatvinnuleysi launafólks og margir urðu að sætta sig við launalækkun og minnkandi starfshlutfall. Þúsundir Íslendinga flúðu land, flestir til Norðurlandanna. Fólk varð skuldum vafið á nokkrum mánuðum og margir misstu íbúðir sínar í hendur lánardrottna. Hér ríkti uppreisnarástand þar sem fólkið í landinu varð um tíma að taka til sinna ráða og krefjast umbóta á fjöldafundum. Stjórnmálamennirnir skildu ekkert í þessu fyrr en umsátur hófst um Alþingishúsið og ríkisstjórn féll.
Fjárglæframennirnir sem áttu að bera ábyrgð á yfirvofandi gjaldþroti Íslands tóku sumir engum afleiðingum gerða sinna. Sumir höfðu komið fé sínu í skjól og komust flestir upp með það. Nú renna peningar þeirra aftur heim til Íslands þar sem þeir hafa keypt upp eignir og fyrirtæki og skammast sín ekki neitt. Margir koma nú aftur heim með illa fengið fé sitt og kaupa sig inn í fyrirtæki með peninga á undirverði. Siðleysi þeirra er algert.
Stóri lærdómurinn af hruninu er sá að það var íslenskur almenningur sem varð að súpa seyðið af fjárglæfrum bankamanna. Það var almennt launafólk sem ekki bar nokkra ábyrgð á hruninu sem tók á sig mestu byrðarnar. En það var líka almenningur sem gerði kröfur um breytingar á stjórnskipun landsins, að fjármálalíf landsmanna og stjórnkerfi yrði gagnsærra og siðferði yrði innleitt í íslenskt fjármálakerfi.
Við hétum því þá að lagfæra stjórnarskrána til þess að með nýrri stjórnskipan landsins mætti veita viðnám gegn nýju efnahagshruni. Rannsóknarskýrsla Alþingis fletti hulunni af siðspillingu og samtryggingu fjármálamanna sem höfðu rakað að sér fé á kostnað almennings. Skýrslan varð samt ekki til þess að grundvallarbreytingar yrðu gerðar á þjóðfélagsgerð eða skiptingu arðsins af atvinnulífi landsmanna.
Enn á ný rennur þetta allt upp fyrir okkur – ljóslifandi. Við erum enn að horfa á himinhá laun ráðamanna í stórfyrirtækjum sem tala fyrir stöðugleika í einu orði en í því næsta krefjast þeir tuttugufaldra launa fyrir stjórnendur. Þeir horfa í hverja krónu þegar á að umbuna almennum starfsmönnum fyrir aukið álag og langan vinnudag. En þegar kemur að þóknun þeirra sjálfra, þá kemur annað hljóð í strokkinn. Þegar krafa er um aukinn arð starfsmanna af fyrirtæki sem skilar ríflegum tekjuafgangi, þá hefst grátkór eigenda fyrirtækisins en þegar aðalfundur tilkynnir um rausnarlegan arð af hlutafé eigenda, þá þykir það meira en sjálfsagt. Við eigum ekki neina peninga til að hugsa almennilega um gamla fólkið okkar, elli- og örorkulífeyrisþegana eða hlúa að börnum okkar en forstjórum fyrirtækja, embættismönnum og ráðherrum er hampað með þykkari launapakka en nokkru sinni fyrr.
Undanfarna mánuði hefur reiði almennings magnast upp og finnur sér nú farveg í margvíslegum myndum. Umræðan um laun alþingismanna, ráðherra og æðstu embættismanna hefur staðið linnulaust síðan 2016. Frá þeim tíma hafa fjölmargir hópar æðstu embættismanna, dómarar og fleiri fengið margfaldar launahækkanir á við þær hækkanir sem almennu launafólki hefur staðið til boða. Ekki nóg með það heldur hafa við hvern úrskurð verið reiknaðar launabreytingar stundum nokkur ár aftur í tímann sem nema milljónum króna. Er von að fólki blöskri? Er nema von að fólkið hugsi. Er ekki nóg komið af þessu himinhrópandi ranglæti? Þetta er brjálæði og þessu verður að linna!
Á sama tíma og þessi ósvinna líðst gagnvart launafólki hafa stjórnvöld hunsað allar kröfur um réttlátt kerfi tekjuskatta og sanngjarnari skattheimtu. Skattleysismörk hafa ekki fylgt launavísitölu, barnabætur og vaxtabætur hafa verið svo skertar að þær skipta engu máli lengur fyrir launafólk með meðaltekjur og húsaleigubætur hafa lækkað jafnt og þétt hlutfallslega. Við bætist síðan að læknisþjónusta er tengd ýmsum þátttökugjöldum sjúklinga sem hafa mikil áhrif á það hvort fólk leitar sér lækninga. Er þetta í lagi?
Ríkisstjórnin er eins og í öðrum heimi. Hún vill ekki sjá hið ömurlega ranglæti þar sem fólk vinnur myrkranna á milli, jafnvel í tveimur og þremur störfum. Ráðherrarnir halda að það sé nóg að bjóða verkalýðsleiðtogum og foringjum atvinnurekenda í kaffi á nokkurra daga fresti og þá séu bara allir vinir! Allir eiga bara að bíða sælir og rólegir eftir að geta faðmast eftir undirritun kjarasamninga og vöfflukaffi. Þeir skilja ekki að fólki er misboðið. Þeir skilja ekki að það er komið nóg. Fólkið mun rísa upp eins og það gerði í búsáhaldabyltingunni gegn þessu ranglæti.
Kannski er kominn tími á eins og forðum þegar Jesús fleygði víxlurunum út úr musterinu að ráðherrarnir skyggnist inn í mötuneytin og ræði við ræstingarfólkið um launin þeirra og hendi þeim út sem hafa samið við ræstingarfyrirtækin um smánarleg laun þessa fólks sem þrífur skítinn undan þeim og framleiðir matinn þeirra.
Það er ekkert skrýtið að fólki ofbjóði allt þetta. Kröfur okkar launamanna á baráttudegi verkalýðsins hljóta nú að vera grimmar og bornar þannig fram að fólkið heyri.
• Við krefjumst þess að allir launamenn á Íslandi búi við þau réttindi að geta lifað mannsæmandi lífi af dagvinnutekjum þannig að þeir geti komið heim að afloknum vinnudegi og notið eðlilegs lífs með börnum sínum og fjölskyldum.
• Við krefjumst þess að allt launafólk búi við mannsæmandi húsnæði og geti valið milli þess að kaupa eða leigja húsnæði á viðráðanlegu verði fyrir sig og fjölskyldu sína.
• Við krefjumst þess að ríkisstjórnir hætti að hygla stóreignafólki í sköttum. Það verður ekki lengur þolað að lágtekju- og millitekjufólk borgi megnið af sköttum landsmanna og haldi síðan uppi með skattlagningu lífeyriskjörum þeirra sem hafa það miklu betra en almennt launafólk.
• Við verðum að horfast í augu við það að innviðir íslensks samfélags í heilbrigðisþjónustu, menntun og velferðarþjónustu standast engan veginn samanburð við önnur ríki á meginlandi Evrópu. Því verður að linna að fólk flytjist til annarra landa til að geta tryggt alvarlega veikum börnum sínum eða fötluðum nægilega góða aðhlynningu.
• Í samgöngum er vegakerfi okkar að hruni komið og glötuð tækifæri blasa við eftir viðkomu milljóna ferðamanna á síðustu árum.
• Í lífskjörum verðum við að byggja á því besta sem þekkist í heiminum og það er meðal vinaþjóða okkar á Norðurlöndunum. En það verður ekki gert nema Íslendingar taki allan pakkann. Ekki bara efnahagsstöðugleika, heldur stöðugleika fyrir fjölskyldur og börn, örorku- og ellilífeyrisþega.
Lokaorð þessa ávarps á baráttudegi verkalýðsins eru hvatning til allra verkalýðssinna um að minnast þess mikilvægasta í allri kjarabaráttu. Við gerum ekkert án samstöðunnar. Mikilvægast fyrir verkalýðinn er að móta stefnu um hvað við viljum sem launafólk. Síðan er að safna liði um málstaðinn þar sem allir berjast sem einn maður að sameiginlegu markmiði. Sundrungaröflin er alls staðar. Þau vilja sundra okkur launafólkinu því þau vita að sameinuð sigrum við en sundruð föllum við. Við sundrum okkur með því að lifa í eilífri innri gagnrýni á okkur sjálf. Sundruð verðum við umbjóðendum okkar að minna gagni. Við þurfum að horfa til stefnumálanna og hvernig við ætlum að ná þeim fram. Það er aðalatriðið.
Ef við gerum það þurfum við engu að kvíða.