Veðurhorfur á landinu
Vestan 5-13 m/s. Skýjað og dálítil væta, en bjartviðri á Suðausturlandi og Austfjörðum. Bætir í úrkomu í kvöld. Vestan og norðvestan 5-10 á morgun, en 8-13 m/s austanlands. Rigning með köflum á norðanverðu landinu, en léttir smám saman til sunnan- og vestantil. Hiti 4 til 14 stig, hlýjast suðaustanlands. Dregur úr vindi og úrkomu annað kvöld.
Spá gerð: 01.05.2025 05:35. Gildir til: 02.05.2025 00:00.
Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á föstudag:
Vestan og síðar norðvestan 3-10 m/s. Rigning eða slydda á Norður- og Austurlandi og hiti 2 til 7 stig. Birtir upp sunnan heiða eftir hádegi með hita að 12 stigum. Úrkomulítið um kvöldið og kólnar.
Á laugardag:
Hæg breytileg átt og yfirleitt léttskýjað. Hiti 6 til 13 stig yfir daginn, hlýjast suðvestanlands.
Á sunnudag:
Suðvestan 5-10 og lítilsháttar væta, en bjart með köflum norðaustan- og austanlands. Hiti 7 til 15 stig, hlýjast á Austurlandi.
Á mánudag:
Sunnanátt og sums staðar dálítil væta, en skýjað og þurrt á norðaustanverðu landinu. Hiti breytist lítið.
Á þriðjudag og miðvikudag:
Suðlæg átt og rigning af og til, en skýjað með köflum norðaustan- og austantil. Hiti 8 til 15 stig, hlýjast á norðausturlandi.
Spá gerð: 30.04.2025 21:15. Gildir til: 07.05.2025 12:00.
Hugleiðingar veðurfræðings
Það er lægð suðvestur af Reykjanesi sem stýrir veðrinu hjá okkur í dag. Skil frá henni fóru yfir landið í nótt og frá hádegi hafa fleiri úrkomubakkar frá henni verið viðloðandi sunnanvert landið. Það hefur verið sunnanátt á landinu og hlýtt fyrir norðan og austan. Þegar þetta er skrifað hefur hlýjast mælst 16.4 stig í Ásbyrgi, 16.3 stig á Hallormsstað og 16.1 stig á Húsavík.
Á morgun er útlit fyrir vestan og norðvestan 5-13 m/s. Úrkomusvæði berst inn á Norðurland í fyrramálið og þá gæti úrkoman verið á formi snjókomu á sumum fjallvegum, t.d. á Öxnadalsheiði. Úrkoman á Norðurlandi minnkar eftir hádegi. Á vestanverðu landinu verður skýjað og væntanlega smádropar öðru voru og heldur meiri væta þar annað kvöld. Það er hins vegar Suðausturlandi og Austfirðir sem munu væntanlega hafa vinninginn á morgun hvað varðar veðurgæði, þar er spáð þurru og þokkalega björtu veðri og hita allt að 15 stig þegar best lætur.
Á föstudag snýst í norðan 3-8 m/s, en 8-13 austanlands. Rigning eða slydda á Norður- og Austurlandi og hiti 2 til 7 stig þar. Birtir upp sunnan heiða eftir hádegi með hita að 12 stigum.
Á laugardag er síðan spáð hæð yfir landinu. Þá verður hægur vindur og léttskýjað um mestallt land og því hið besta veður. Spá gerð: 30.04.2025 15:27. Gildir til: 02.05.2025 00:00.