Starfshópur sem Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra, skipaði í lok árs 2021 til að skoða starfsemi, regluverk, eftirlit og löggjöf í kringum blóðtöku úr fylfullum hryssum hefur skilað skýrslu sinni.
Í skýrslunni er rýnt í umfang starfseminnar, eftirlit, dýravelferð, löggjöf, sjónarmið hagaðila og tillögur settar um framhaldið.
Í skýrslunni kemur fram að lagaumgjörðin um blóðtöku úr fylfullum hryssum sé afar óljós og ekki viðunandi þar sem um nokkuð umfangsmikla og umdeilda starfsemi er að ræða. Það er mat starfshópsins að lagaheimild sé til staðar til að starfsemin sé gerð leyfisskyld og því ekki þörf á lagabreytingum til að svo megi verða. Á grundvelli skýrslunnar hefur matvælaráðherra ákveðið að setja reglugerð um starfsemina sem mun gilda til þriggja ára. Í reglugerðinni verður skýrt kveðið á um hvaða skilyrði starfsemin þarf að uppfylla og jafnframt að starfsemin sé leyfisskyld.
Með setningu slíkrar reglugerðar yrði hin óljósa réttarstaða þessarar starfsemi færð til betri vegar. Gildistími reglugerðarinnar verður nýttur til að fylgjast með framkvæmd starfseminnar og leggja mat á framtíð hennar. Samhliða telur matvælaráðherra rétt að efna til sérstakrar umfjöllunar um siðferðileg álitamál tengd starfseminni. Með því að setja reglugerð af þessu tagi verður skýrt að starfsemin sé leyfisskyld og háð skilyrðum og jafnframt að hún fellur ekki undir ákvæði reglugerðar nr. 460/2017, um dýr sem notuð eru í vísindaskyni.
Líkt og fram kemur í skýrslunni munu skilyrði reglugerðarinnar byggja á sömu skilyrðum og Matvælastofnun setur nú. Hópurinn leggur einnig til að þau verði hert m.a. með tilliti til þeirra sjónarmiða sem fram komu hjá hagaðilum og öðrum sem starfshópurinn ræddi við. Setja þarf ítarlegri ákvæði um aðbúnað og aðstöðu, eftirlit með ástandi hrossa varðandi heilbrigði, hófhirðu og skapgerðarmat, vinnuaðferðir við blóðtökuna sjálfa og um innra og ytra eftirlit með henni.
Þá telur hópurinn nauðsynlegt að óháður aðili svo sem Tilraunastöðin á Keldum sannreyni mælingar á blóðbúskap hryssnanna að minnsta kosti tímabundið. Nauðsynlegt er einnig að skilyrði verði sett um aldursbil hryssna í blóðtöku, hámarksfjölda í stóðum og hámarksfjölda sem dýralæknir má hafa umsjón með í blóðtöku. Þá er eðlilegt að aðstoðarmaður undir stjórn dýralæknis sé til staðar við hvern blóðtökubás til að geta brugðist skjótt við ef vandamál koma upp.
Hópurinn leggur einnig til að ekki verði leyfilegt að notast við framleiðslukerfi sem hvetur til og byggir á magnframleiðslu enda geti það stefnt velferð dýranna í hættu.
Með reglugerðinni verður jafnframt kveðið á um ábyrgð þeirra aðila sem að blóðtökunni koma, þ.e. hver beri ábyrgð á hrossunum (hryssur og folöld) í hverjum verkþætti blóðtökunnar frá því að rekið er að og þar til hrossin eru komin í varanlegt beitarhólf aftur. Við vinnu sína leitaði starfshópurinn umsagna og álits eftirtalinna hagaðila:
- Animal Welfare Foundation
- Dýralæknafélag Íslands
- Dýraverndarsamband Íslands
- Eggert Gunnarsson dýralæknir
- Fagráð í hrossarækt
- Fagráð um velferð dýra
- Alþjóðasamband Íslandshestafélaga
- Félag hrossabænda
- Félag tamningamanna
- Ísteka
- Í-ESS bændur
- Landssamband hestamannafélaga
- Samtök um dýravelferð á Íslandi
- Prófessor Xavier Manteca Vilanova.
Skýrsluna má nálgast hér.