-0.2 C
Reykjavik
Laugardagur - 4. febrúar 2023
Auglýsing

Ísland í 2.flokki í mansalsmálum

Auglýsing

Auglýsing

Nýjar fréttir

Auglýsing

Bandaríska utanríkisráðuneytið hefur undanfarin ár birt árlega skýrslu sína um mansal. Í skýrslunni er fjallað um stöðu mansalsmála í ríkjum heimsins og aðgerðir stjórnvalda einstakra ríkja til að spyrna gegn mansali. Skýrslan byggir á einhliða úttekt bandarískra stjórnvalda á öðrum ríkjum þar sem leitað er upplýsinga hjá félagasamtökum, einstaklingum, internetinu ásamt svörum frá tilteknum stjórnvöldum. Íslensk stjórnvöld fá skýrsluna ekki til umsagnar áður en hún er birt.

Ríkin eru flokkuð í fjóra flokka og er Ísland nú í 2. flokki, annað árið í röð. Ísland var í 1.flokki til ársins 2017. Bandaríska utanríkisráðuneytið telur íslensk stjórnvöld þannig ekki lengur uppfylla að öllu leyti kröfur þeirra til útrýmingar á mansali í heiminum en sé þó að stíga þýðingarmikil skref í þá átt.
Bandarísk stjórnvöld gagnrýna sérstaklega að ekki hafi verið ákært fyrir nein mansalsbrot síðan 2010 og að þekkingu á málaflokknum innan kerfisins sé ábótavant, sem og vernd, aðbúnaður og aðstæður sem meintir þolendur búi við meðan mál þeirra eru til meðferðar í réttarvörslukerfinu. Þá er jafnframt tekið fram að íslensk refsilöggjöf hvað varðar mansal sé fullnægjandi og að lögreglan hafi verið efld að undanförnu með áherslu á rannsókn mansalsmála á Íslandi. Íslensk stjórnvöld hafi einnig opnað Bjarkahlíð, miðstöð fyrir þolendur ofbeldis, sem veiti meðal annars þjónustu og aðstoð fyrir þolendur mansals.
Íslensk stjórnvöld hafa lagt kapp á að bæta meðferð mansalsmála hér á landi, auka þekkingu á eðli og einkennum brotanna sem og að vernda þolendur brotanna og mæta þörfum þeirra. Aðgerðaráætlun gegn mansali var í gildi árin 2013-2016 og á grundvelli hennar var ráðist í fræðsluátak í samráði við alla hlutaðeigandi hér á landi. Yfir 2000 manns vítt og breytt um landið hafa nú þegar fengið fræðslu. Þá hefur Velferðarráðuneytið sett á laggirnar tvö teymi, þ.e. viðbragðsteymi sem leysir úr málum er varða húsnæði og þjónustu við meinta þolendur mansals og samráðsteymi sem kemur með tillögur að bættri þjónustu við þolendur.
Dómsmálaráðherra hefur einnig sett í forgang vinnu við gerð nýrrar aðgerðaráætlunar gegn mansali í dómsmálaráðuneytinu og verður hún lögð fram strax í haust. Við gerð þeirrar áætlunar verður tekið mið af athugasemdum og ábendingum sem fram hafa komið í úttekt GRETA (Group of Experts on Action against Trafficking in Human Beings), nefnd sérfræðinga sem hefur það hlutverk að fylgja eftir innleiðingu Evrópusamnings um aðgerðir gegn mansali, sem Ísland hefur fullgilt.
Helstu áherslur verða að efla fræðslu/þjálfun t.d. hjá lögreglu varðandi rannsóknir, vitundarvakning og gerð fræðsluefnis, efla þjónustu og úrræði fyrir þolendur, skoða úrræði fyrir gerendur og koma upp NRM (National refferral mechanism), sem myndi einnig tryggja áreiðanlegri tölfræði, svo eitthvað sé nefnt.
Ísland mun þannig áfram skipa sér í fremstu röð þjóða sem berjast gegn mansali í heiminum. Nákvæm úttekt GRETA á stöðu mansalsmála á Íslandi er þýðingarmikil í því sambandi og gagnlegt innlegg í vinnu við nýja aðgerðaáætlun. Teymi á vegum GRETA var hér á landi fyrir stuttu við gerð úttektarinnar og vann hana í ítarlegu samráði við íslensk stjórnvöld. Niðurstöður hennar verða gerðar opinberar í haust.
Úttekt og skýrsla bandarískra stjórnvalda kemur mér ekki á óvart enda í fullu samræmi við niðurstöðu þeirra frá því í fyrra. Helsta gagnrýnin lýtur enn að fjölda ákæra í mansalsmálum hér á landi og hlýtur sú niðurstaða að byggjast á vanþekkingu þeirra á íslensku réttarfari. Ákærur eru ekki gefnar út nema meiri en minni líkur séu á sakfellingu.
Til samanburðar eru gefnar út um 1000 ákærur í mansalsmálum í Bandaríkjunum á ári sem hlýtur að teljast lágt hlutfall miðað við mannfjölda. Löggæslan hefur verið efld til muna hér á landi að undanförnu og meiri þungi lagður í fræðslu til handa þeim sem fara með rannsókn mála af þessu tagi. Við vinnum nú að gerð nýrrar aðgerðaráætlunar gegn mansali sem verður lögð fram í haust. Þar verður lögð áhersla á að aðgerðir séu raunhæfar, tímasettar og vel skilgreindar.
Það þarf líka að stuðla að vitundarvakningu á meðal almennings um þessa tegund mála svo þau þrífist ekki í skugganum og rati frekar til lögregluyfirvalda. Það er óásættanlegt að einstaklingar séu hnepptir í ánauð af hvaða ástæðu sem er og íslensk stjórnvöld munu gera það sem í þeirra valdi stendur til að koma í veg fyrir og uppræta slík brot á frelsi fólks,“ segir Sigríður Á. Andersen, dómsmálaráðherra, um skýrsluna.
Skýrslu bandarískra stjórnvalda má sjá á www.state.govUmfjöllun um Ísland er að finna á bls. 220-221.