Forsætisráðherra og fjármálaráðherra verða að rökstyðja mál sitt
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, og Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, eru samstíga í því að staðhæfa að þeir hópar, sem heyrðu undir kjararáð hafi ekki fengið launahækkanir umfram aðra og vísa í skýrslur.
Ráðherrarnir þurfa að rökstyðja mál sitt með ítarlegri hætti og leggja fram nákvæmar upplýsingar um á hverju þau byggja þessar staðhæfingar og hver viðmiðin eru.
Það er ekki nýtt að aðilar að kjaradeilum byggi málflutning sinn á mismunandi forsendum.
Það eru ekki bara verkalýðsforingjar, sem tala á annan veg en ráðherrarnir. Á ársfundi Samtaka atvinnulífsins í apríl sl. sagði nýkjörinn formaður samtakanna, Eyjólfur Árni Rafnsson m.a.:
„Úrskurðir kjararáðs um laun æðstu embættismanna og kjörinna fulltrúa hafa valdið megnri óánægju og usla í þjóðfélaginu. Ánægjulegt er að náðst hefur samstaða um að leggja kjararáð niður og að í staðinn taki laun þessara hópa framvegis breytingum í samræmi við þróun meðallauna ríkisstarfsmana. Það ásamt tímabundinni frystingu launa framangreindra hópa getur leiðrétt misvægið sem leiddi af ákvörðunum kjararáðs“.
Formaður Samtaka atvinnulífsins leggur bersýnilega ekki sama mat á þessa stöðu og ráðherrarnir. Það gerði ASÍ ekki heldur í febrúar sl. en í tilkynningu frá samtökunum hinn 16. febrúar sl. sagði:
„Starfshópur, sem skipaður var af forsætisráðherra til að fjalla um málefni kjararáðs 23. janúar sl. varð sammála um að kjararáð hafi í ákvörðunum sínum um kjör æðstu stjórnenda ríkisins farið langt umfram viðmið rammasamkomulags aðila vinnumarkaðar og stjórnvalda frá 2015…“.
Í ljósi þessara tilvitna í málflutning aðila vinnumarkaðar er nauðsynlegt að ráðherrarnir rökstyðji mál sitt betur en þeir hafa gert.
Kjaraviðræður munu reyna á þolrifin í stjórnarsamstarfinu
Samningaviðræður um kaup og kjör á næstu mánuðum eiga eftir að reyna á þolrifin í stjórnarsamstarfinu. Og ekki ólíklegt að straumar og stefnur í íslenzkum stjórnmálum undanfarinna margra áratuga eigi eftir að endurspeglast í þeim átökum.
Sú var tíðin að sjálfstæðismenn voru annar stærsti hópurinn á ASÍ-þingum. Það var þegar Sjálfstæðisflokkurinn lagði mikla rækt við starf í verkalýðsfélögum. Það er liðin tíð en engu að síður væri áhugavert að fá fram sjónarmið verkalýðstengdra sjálfstæðisfélaga til núverandi stöðu á vinnumarkaðnum.
Sá þrýstingur, sem skapaðist innan VG vegna ljósmæðradeilunnar var eins konar forsmekkur af því, sem á eftir að gerast þar innan dyra á næstu mánuðum. Auðvitað er hugsanlegt að í ljós komi að VG hafi ekki síður en Samfylkingin misst tengslin við verkalýðshreyfinguna en það er heldur ótrúlegt að það sé í þeim mæli að þeir hópar innan VG láti ekki til sín heyra.
En svo er þetta: Hvað gerir Framsókn?
Á síðustu tveimur áratugum hefur meiri áherzla verið innan Framsóknarflokksins á samstarf við Sjálfstæðisflokk en til vinstri en fyrir vinstra samstarfi er sterk hefð innan Framsóknarflokksins frá fyrri tíð.
Það er ekki hægt að útiloka, að í því þriggja flokka samstarfi, sem nú er í ríkisstjórn eigi eftir að skapast málefnaleg samstaða milli VG og Framsóknarflokks sem verði Sjálfstæðisflokknum erfið.
Þeir tveir flokkar eiga auðveldara með að mynda nýjan meirihluta á Alþingi en Sjálfstæðisflokkur.
Að þessum pólitíska þætti málsins þarf að huga ekki síður en öðrum“
Segir Styrmir Gunnarsson, f.v. Ritstjóri Morgunblaðsins.