Samvinnuhugsjónin lifir góðu lífi á Fáskrúðsfirði og segja má að bæjarbúar eigi útgerðina á staðnum. Stjórnarformaður Kaupfélagsins fagnar frumvarpi sem á að fyrirbyggja að slík félög séu leyst upp fyrir skjótfenginn gróða.
Á frystihúsi Loðnuvinnslunnar á Fáskrúðsfirði hangir merki Sambands íslenskra samvinnufélaga. Eftir að sambandið féll björguðu heimamenn því af haugunum og settu upp aftur. Á Fáskrúðsfirði er nefnilega starfandi Kaupfélag Fáskrúðsfirðinga og fjallaði rúv.is um málið.
84% hlutur í Loðnuvinnslunni er verðmætasta eign kaupfélagsins og þar verða peningarnir til. Steinn Jónasson, stjórnarformaður kaupfélagsins, segir að Fáskrúðsfirðinga langi ekki til að leysa út þessa eign til að hagnast sjálfir. Kaupfélagið er í eigu rúmlega 350 félagsmanna á Fáskrúðsfirði.
„Nei, alla vega ekki þeim sem eru í kaupfélaginu í dag. Ég hef ekki heyrt nokkurn mann vilja gera það. Ég held að ef það yrði gert myndi margt gerast hér sem er ekki gott,“ segir Steinn í viðtali við RÚV.
„Peningurinn okkar er hér“
Steinn fagnar því að verja eigi samvinnufélögin og vill ekki til þess hugsa að Kaupfélagið yrði yfirtekið.
„Á meðan við eigum það þá er það hér. Allir fjármunir fyrirtækisins sem verða til verða hér. Þeim er ráðstafað hér í góð verkefni og við erum að viðhalda eignum. Við erum að viðhalda skipum. En af því að við erum með allt fjármagnið hér á milli handanna þá getum við þetta svona. Peningurinn okkar er hér,“ segir Steinn Jónasson, stjórnarformaður Kaupfélags Fáskrúðsfjarðar í viðtalinu.