Ríkisstjórnin mælist með minni stuðning landsmanna en nokkur ríkisstjórn frá upphafi mælinga fyrir 30 árum og Sjálfstæðisflokkurinn hefur aldrei mælst minni, samkvæmt nýjum Þjóðarpúlsi Gallups.
Miðflokkurinn er næststærsti flokkur landsins á eftir Samfylkingunni. Saman gætu þessir flokkar myndað tveggja flokka stjórn. Að því er kemur fram á vef ríkisútvarpsins.
Metfylgi Miðflokksins og minnsta fylgi Sjálfstæðisflokksins
Samfylkingin mælist með sama fylgi og fyrir mánuði, 26 prósent. Miðflokkurinn fer hins vegar úr sextán prósentum í nítján og Sjálfstæðisflokkurinn úr sautján prósentum í fjórtán.
Viðreisn og Píratar standa nokkurn veginn í stað milli mánaða, Viðreisn með tíu prósent og Píratar með átta. Flokkur fólksins mælist með sjö og hálft prósent og Framsóknarflokkurinn með sex prósent og dregur aðeins í sundur með þeim. Sósíalistaflokkurinn mælist enn inni á þingi með fimm prósent. Vinstri græn spyrna sér aðeins frá botni en mælast samt aðeins með rúmlega fjögurra prósenta fylgi.
Einn möguleiki á tveggja flokka stjórn
Gallup reiknaði út skiptingu þingsæta fyrir fréttastofu RÚV. Samkvæmt henni fengi Samfylkingin nítján þingsæti, fjórtán sætum meira en í kosningum en samt einu þingsæti minna en hún mældist með í síðasta mánuði.
Miðflokkurinn fengi þrettán þingmenn. Hann hlaut þrjú þingsæti í síðustu kosningum en einn gekk til liðs við Sjálfstæðisflokkinn. Miðflokkurinn mældist með tíu þingsæti fyrir mánuði.
Allir þingmenn Samfylkingarinnar og Miðflokksins yrðu kjördæmakjörnir. Flokkarnir fengju samanlagt 32 þingsæti. Það myndi duga til að mynda ríkisstjórn með minnsta mögulega meirihluta á þingi.
Níu þingmenn Sjálfstæðisflokks
Ef niðurstöður nýjasta Þjóðarpúlsins gengju eftir myndi í fyrsta skipti duga einn tölustafur til að tákna þingflokk Sjálfstæðisflokksins. Hann fengi samkvæmt henni níu þingsæti, tveimur minna en í síðustu könnun og tapaði sjö þingsætum frá kosningum.
Þingmannafjöldi annarra flokka mælist óbreyttur milli kannana. Viðreisn fengi sex þingsæti, Píratar fimm og Flokkur fólksins og Framsóknarflokkurinn fjögur þingsæti hvor. Sósíalistar næðu þremur mönnum inn á þing.
Vinstri græn mælast enn utan þings þrátt fyrir lítils háttar fylgisaukningu milli mánaða.
Stjórnin nýtur stuðnings 24 prósenta
24 prósent landsmanna styðja ríkisstjórnina samkvæmt nýjum Þjóðarpúlsi Gallups. Engin ríkisstjórn hefur notið stuðnings svo fárra í 30 ára sögu slíkra mælinga. Segir í frétt rúv.