Jafnréttislöggjöfin á Nýja-Sjálandi hefur tekið umtalsverðum breytingum á undanförnum árum í kjölfar þess að kona sem starfaði á hjúkrunarheimili vann dómsmál þar sem hún krafðist þess að virði starfs hennar væri metið sambærilegt virði starfs fangavarða.
Konan starfaði við umönnun, í starfi þar sem konur eru í miklum meirihluta. Kjör hennar voru talsvert verri en kjör fangavarða, stétt þar sem karlar eru í meirihluta. Eftir að dómur féll konunni í hag hafði hann keðjuverkandi áhrif á samfélagið, eins og rakið er í skýrslunni Verðmætamat kvennastarfa – Tillögur starfshóps forsætisráðherra um endurmat á virði kvennastarfa.
Fyrstu áhrifin voru þau að um 55 þúsund félagar konunnar í sömu starfsstétt fengu sömu launaleiðréttingu. Kostnaðurinn vegna þessa nam jafnvirði um 180 milljarða króna. En það var bara upphafið að viðamiklum breytingum í átt að auknu jafnrétti kynjanna. Í kjölfar dómsins skipaði forsætisráðherra Nýja-Sjálands starfshóp um launajafnrétti sem átti að auka samvinnu stjórnvalda við stéttarfélög og atvinnurekendur um viðbrögð við sambærilegum kröfum kvennastétta um launaleiðréttingu. Hópurinn gerði tillögur og leiðbeiningar til að styðja við framfylgd jafnréttislaga og lagði áherslu á hlutverk hins opinbera sem atvinnurekanda þegar kom að jafnréttismálum.
Tillögur starfshópsins urðu grundvöllur lagabreytinga árið 2020. Þær breytingar voru annars vegar þær að innleiða ferli sem auðveldaði úrlausn ágreiningsmála tengdum jafnlaunakröfum en hins vegar að tryggja að ágreiningi sem ekki væri hægt að leysa úr yrði skotið til úrskurðarnefnda eða dómstóla. Markmiðið með breytingunum er að útrýma kynbundnum launamun með því að tryggja að gripið yrði til aðgerða þegar þess gerðist þörf.
Dómsmál konunnar sem starfaði á hjúkrunarheimilinu varð því að þúfunni sem velti þungu hlassi í jafnréttismálum í Nýja-Sjálandi. Nú geta konur lagt fram jafnlaunakröfu gagnvart sínum atvinnurekanda, sé starf þeirra að meirihluta sinnt af konum eða hafi það verið vanmetið í sögulegu ljósi. Málin eru sett í faglegan farveg með skýra ferla og markmið. Fjallað var um málið á vef BSRB.
Nánar er fjallað um málið í skýrslunni Verðmætamat kvennastarfa – Tillögur starfshóps forsætisráðherra um endurmat á virði kvennastarfa.