Við afgreiðslu fjárlaga í desember fór fram hinn árlegi jólagjafaleikur ríkisstjórnarinnar.
Sá leikur hefur það eitt að markmiði að geta við lok hans barið sér á brjóst og sagt: „Sko, víst erum við góð við öryrkja!“ Leikurinn hefst á því að fjármála- og efnahagsráðherra leggur fram strípuð fjárlaga- og fjáraukalagafrumvörp þegar kemur að réttindum öryrkja.
Við umfjöllun í fjárlaganefnd og afgreiðslu málanna eru svo, á elleftu stundu, lagðar fram breytingartillögur sem oft eru samhljóða því sem stjórnarandstaðan hefur áður lagt fram og þær afgreiddar með lúðrablæstri.
Eftir fimm ára setu ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur treysti hún sér loks til að hækka frítekjumark atvinnutekna öryrkja í 200 þúsund krónur á mánuði til samræmis við frítekjumark eftirlaunafólks en frítekjumarkið hefur staðið í stað frá því að Samfylkingin var síðast í stjórn. Eingreiðsla, svokallaður jólabónus, upp á 60 þúsund krónur var einnig afgreidd en hana var ekki að finna í upphaflegum tillögum fjármálaráðherrans.
Samfylkingin fagnar því að sjálfsögðu innilega að tekjulægstu íbúar landsins fái sinn jólabónus. Hann kemur sér örugglega vel. Fyrir hækkuðu frítekjumarki atvinnutekna hefur Samfylkingin barist árum saman enda löngu tímabær breyting.
Afleiðing kerfisins
Á Íslandi býr fatlað fólk og þau sem misst hafa starfsgetuna eða glíma við langvinna sjúkdóma við fátækt og jaðarsetningu. Það er mannanna verk. Afleiðing kerfis sem heldur fólki undir oki fátæktar jafnvel kynslóð fram af kynslóð.
Sumir virðast hafa sætt sig við að sú staða sé óumbreytanleg en það gerir Samfylkingin ekki. Það er pólitískt forgangsmál okkar að breyta örorkulífeyriskerfinu svo að það byggist á mannréttindum fólks en ekki tilfallandi greiðslum sem eiga meira skylt við ölmusu en nokkuð annað.