Hæstiréttur komst í gær að þeirri niðurstöðu að Jóhannes Sigurðsson, landsréttardómari, hefði verið vanhæfur til að dæma í skaðabótamáli þrotabús Sameinaðs Silíkons gegn endurskoðunarfyrirtækinu Ernst & Young, fjallað er ítarlega um málið á vef ríkisútvarpsins.
Þar kemur fram að endurskoðunarfyrirtækið Ernst & Young taldi Jóhannes vanhæfan og benti á að það hefði gert tvær skýrslur um fjárfestingafélagið Milestone þar sem Jóhannes var aðstoðarforstjóri á árunum 2006 til 2009. Önnur þeirra hafi verið ítarleg rannsókn á bókhaldi og fjárreiðum Milestone og tengdra félaga. Þar hefði verið bent á margvíslegar ráðstafanir sem leitt hefði til riftunarmála og sakamáls gegn fyrrverandi samstarfsmönnum Jóhannesar.
Hæstiréttur sagðist ekki geta fallist á að þeir atburðir sem vörðuðu félagið Milestone væru það gamlar að áhrifa þeirra gætti ekki lengur. Ætla mætti að efnahagshrunið 2008 markaði enn djúp spor í íslensku samfélagi.
Hæstiréttur taldi því að ekki væri hægt að fallast á að dómur í máli þessu, þar sem Jóhannes hefði tekið sæti, hefði yfir sér það yfirbragð hlutleysis sem gera yrði kröfu um svo dómstólar sköpuðu sér það traust sem nauðsynlegt væri að þeir nytu í lýðræðisþjóðfélagi. Var dómur Landsréttar því ómerktur og málinu vísað aftur til dómstólsins.“ Segir á vef rúv.
Umræða